Innlent

Lyfjaverð gæti hækkað. "Bitnar á þeim sem síst skyldi."

Hrund Þórsdóttir skrifar
Sumar lyfjaverslanir hafa veitt afslætti frá hámarksverði lyfja en að mati Neytendasamtakanna verða nýjar reglur til þess að afslættir leggjast að mestu af. Sjúkratryggingar Íslands geri nú kröfu um að afsláttur renni að stærstum hluta til þeirra, í stað þess að hann fari til kaupenda lyfjanna eins og verið hefur. Því sé ekki lengur hvati til staðar fyrir lyfjaverslanir til að bjóða afslætti á lyfseðilsskyld lyf.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir breytingarnar í beinu samhengi við nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakaupa. „Það hefði verið hægt að heimila apótekum áfram að veita afslætti en það var ekki gert og við hvetjum heilbrigðisráðherra mjög eindregið til þess að fara rækilega yfir þetta mál,“ segir hann.

Jóhannes segir nýja kerfið verja þá sem borið hafi mestan lyfjakostnað. Samtökin leggist því ekki gegn því sem slíku en óttist að ef afslættir leggist af dragi það úr samkeppni á markaði þar sem þegar ríki fákeppni. Hann segir breytingarnar brjóta í bága við lyfjalög og samkeppnislög. Lyfsölum verði áfram heimilt að veita afslætti af lyfjum sem ekki séu niðurgreidd en breytingarnar bitni helst á þeim sem þurfi á niðurgreiddum lyfseðilsskyldum lyfjum að halda. „Þessi ágalli á útfærslunni kemur til með að bitna á þeim sem síst skyldi,“ segir Jóhannes.

Velferðarráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar er sagt rangt að Sjúkratryggingar Íslands geri kröfu um að stærstur hluti afslátta renni til þeirra, lyfsölum sé í sjálfsvald sett hve mikinn afslátt þeir veiti og hann nýtist sjúklingum. Jóhannes gefur lítið fyrir þetta því lyfsalar hafi tjáð honum annað. „Ef lyfsalarnir eru að misskilja þá er það dálítið alvarlegt mál. Það er búið að samþykkja lög og gefa út reglugerð, eru allir að misskilja nema ráðuneytið og sjúkratryggingar?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×