Innlent

Heilbrigðisráðherra skoðar hvort allar barnshafandi konur verði skimaðar

Hjörtur Hjartarson skrifar

Nýskipaður heilbrigðisráðherra hyggst skoða hvort skimun fyrir streptókokkum b verði hluti af reglulegu eftirliti með barnshafandi konum. Sóttvarnalæknir hefur ítrekað fimm ára gamla tillögu sína við ráðherra að sá háttur verði tekinn upp.

Árið 2008 lagði sóttvarnalæknir það til við þáverandi heilbrigðisráðherra að allar barnshafandi konur yrðu skimaðar fyrir GBS bakteríunni. Nú er spurning hvort nýskipaður heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson fái sama erindi inn á borð til sín.

"Það er alveg ljóst að það eru ærin verkefni að vinna í íslensku heilbrigðisþjónustu og er þetta meðal annars eitt af þeim. En við komum alltaf að þessum sama punkti að við þurfum í ljósi takmarkaðra fjármun að forgangsraða þeim verkefnum sem við ráðumst í," sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Talið er að það myndi kosta á bilinu 5-7 milljónir króna á ári að skima allar barnshafandi konur.

Kristján segir að það sé ekki há fjárhæð í samhengi hlutanna en í samhengi beiðnanna um verkefni í íslenskri heilbrigðisþjónustu sé þetta ágæt upphæð.  

En þó eru ekki allir sammála um að reglubundin skimun allra barnshafandi kvenna nauðsynleg í meðhöndlun kvenna með GBS bakteríuna.

"Sú nálgun sem við notum hér er að styðjast við svokallaða áhættunálgun. Ef að til dæmis GBS bakterían er í þvaginu er það vísbending að hún sé í miklu mæli í leggöngum móðurinnar, ef það er að fæðast fyrirburi og ef mamman hefur áður eignast barn sem hefur veikst af GBS bakteríunni. Þannig að með áhættunálgun þá hefur okkur tekist að halda sýkingum í nýburum í lágmarki," segir Hildur Harðardóttir, yfirlæknir kvennadeildar Landspítalans.

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir ítrekar að regluleg GBS skimun sé ennþá ofarlega á forgangslista stofnunarinnar. Þannig megi fækka ennfrekar þeim tilfellum þar sem börn sýkjast í fæðingu.

"Sóttvarnarráð hefur fyrir sitt leyti mælt með þessu en sóttvarnaráð er einmitt stefnumótandi í landinu. Nú vonum við bara að þetta geti gerst fljótlega," segir Haraldur.

En mun heilbrigðisráðherra fara eftir tillögum sóttvarnalæknis?

"Ég mun að sjálfsögðu fara yfir allar hans tillögur, sem og fleiri," segir Kristján Þór Júlíusson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×