Innlent

Árni segir að það þurfi að grisja skóginn við Rituhóla

„Ég var nú ekki í bænum þegar þetta gerðist, en það er engin spurning að það þarf að grisja þetta talsvert,“ segir Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, en hann býr á Rituhólum, steinsnar frá trjálundinum sem var grisjaður af íbúum Rituhóla þann 1. maí síðastliðinn. Eins og kunnugt er tóku nokkrir íbúar á Rituhólum sig til á baráttudegi verkalýðsins og söguðu niður hundruð trjáa sem þeir töldu byrgja sýn úr húsum sínum. Árni er þó alsaklaus af þeim gjörningi og segist ekki hafa vitað að til stæði að grisja skóginn.

Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku fullyrtu íbúar við fréttamann að þau hefðu fengið leyfi til að grysja skóginn hjá Reykjavíkurborg og það í tengslum við hreinsunarátak sem þau stóðu fyrir. Það breytir ekki því að Björn Júlíusson, umsjónarmaður Útmarka Reykjavíkurborgar, telur að lög hafi verið brotin.

Árni segir stórbrotið útsýni á bak við skóginn og það sé synd að íbúar fái ekki að njóta alls þess sem svæðið hafi upp á að bjóða. Þess má geta að lóðirnar í Rituhólum og nærliggjandi götum voru á sínum tíma seldar sem útsýnislóðir.

„Svo var þarna blómlegt fuglalíf, þarna voru stelkar, hrossagaukar og rjúpa, fyrir utan smáfuglana. Núna sést ekki fugl þarna,“ segir Árni. Spurður hvort íbúar njóti ekki í staðin skjóls frá norðanáttinni, svarar Árni því til að vindurinn hafi aldrei komist alla leiðina upp, heldur virðist hann beygja nokkuð neðar og tvístrarst svo yfir Vesturlandsveginum.

„Norðanáttin nær ekkert upp í hólana,“ segir hann. Árni segir mikilvægast að leysa þetta mál með íbúum á svæðinu. „Það þarf að taka tillit til þeirra líka,“ bendir Árni á og bætir við: „Og þó að það sé grisjað þarna eða fellt, þá tekur það ekki nema 15 til 20 ár að fá trén aftur.“ Þá á hann við að þarna sé gróðursælt og landið auðvelt til ræktunar.

Hann segir að fyrst og fremst þurfi að gera þetta þannig að svæðið sé vel heppnað og í sátt við íbúa og borgaryfirvöld, „þannig að þetta sé bæði fallegt og vænt,“ segir Árni. Hann segist trúa því að það sé lítið mál að sameina sjónarmið borgarinnar og íbúa á svæðinu.


Tengdar fréttir

Reykvíkingur ársins saknar trjánna sinna

Þroskaskert ungmenni sem hafa árum saman hlúð að trjánum í Breiðholtshvarfi eru miður sín yfir skógarhöggi íbúa við Rituhóla. Leiðbeinandi þeirra, Theodóra Guðrún Rafnsdóttir, hefur annast lundinn í yfir 30 ár og fékk áfall fyrir helgi.

Íbúar í Breiðholti gætu verið kærðir

Nokkrir íbúar í Breiðholti freistuðu þess í vikunni að endurheimta útsýni sitt og grisjuðu skóg á landi Reykjavíkurborgar. Umsjónarmaður svæðisins segir sérhagsmunagæslu íbúa dýrkeypta, skemmdirnar séu miklar og að lög hafi verið brotin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×