Gagnrýni

Fínasti fugl

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bíó. Falskur fugl. Leikstjórn: Þór Ómar Jónsson. Leikarar: Styr Júlíusson, Davíð Guðbrandsson, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Rakel Björk Björnsdóttir.



Arnaldur hefur það ansi skítt eftir að hann kemur að bróður sínum eftir subbulegt sjálfsmorð. Hann er kominn með annan fótinn í fíkniefnaneyslu aðeins sextán ára gamall, og tengir ekki við neitt eða neinn.

Myndin er byggð á skáldsögu Mikaels Torfasonar frá árinu 1997 og líklega var það lán í óláni að ekki tókst að kvikmynda hana fyrr en nú. Íslendingar eru orðnir miklu betri í að búa til myndir um síbölvandi dópista með töffarastæla og áhorfendur orðnir móttækilegri fyrir þeim.

Falskur fugl er að mörgu leyti áhugaverð og vel gerð. Hún hlífir okkur að mestu við sjónrænum óhugnaði en tekst samt að vera óþægileg frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þar spilar aðalleikarinn, Styr Júlíusson, stóran þátt, og eina stundina langar mann að gefa honum vinalegt faðmlag og þá næstu vill maður helst senda hann í sveit. En þarna er hæfileikaríkur piltur á ferðinni sem spennandi verður að fylgjast með.

Myndataka og klipping eru til fyrirmyndar og tónlistin hjálpar til við að undirstrika óþægindin, en hljóðinu er á köflum ábótavant.

Aukaleikarar standa sig flestir með prýði en persónur þeirra eru ekki allar jafn áhugaverðar. Þegar allt er tekið saman er Falskur fugl samt nokkuð lunkið drama og augljóslega gert af heilindum.

Niðurstaða: Áhugavert en óþægilegt unglingadrama.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×