Innlent

„Þetta er svo óeðlilegt“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hafrún segir helsta áhyggjuefnið ekki vera líkamlega áverka.
Hafrún segir helsta áhyggjuefnið ekki vera líkamlega áverka. Mynd/Ernir
"Það má nú dramatísera allt svo sem, en þetta var bæði gert við mig og ég var ekkert að draga úr því að þetta yrði gert við aðra," segir Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur og fyrrverandi handknattleikskona um fréttir af rassskellingum sem hluta af innvígsluhefðum í landslið og meistaraflokka í handbolta.

"Ég hef séð mjög ljóta áverka eftir svona, mun ljótari en á þessari mynd."

Hafrún segir helsta áhyggjuefnið þó ekki vera líkamlega áverka.

Það sem ég fór að hugsa eftir að ég hætti sjálf er það að það er fullt af fólki sem hefur lent í ofbeldi sem börn og unglingar, kynferðisofbeldi og niðurlægingum á einhvern hátt. Þú veist ekkert fyrirfram hvort það sé fólk með þannig bakgrunn í liðinu. Svona getur ekki verið hjálplegt hvað það varðar og það finnst mér áhyggjuefni."

Óæskilegt að segja nei

Hafrún segir að þó hægt sé að segja nei við rassskellingu sé hópþrýstingurinn slíkur að óæskilegt sé að segja nei. "Ég man bara eftir einni manneskju sem sagði nei og það var ekki vinsælt. Þetta er auðvitað ofbeldi og rannsóknir sýna að börn herma eftir ofbeldi fullorðinna. Það að þetta sé komið fram í dagsljósið gerir það að verkum að þetta getur færst niður í yngri flokkana og það viljum við alls ekki."

Flestum ber saman um að rassskellingarhefðin hafi verið í gangi í mörg ár og Hafrún tekur undir það.

"Ef eitthvað er þá hefur þetta minnkað frekar en hitt. En nú er þetta komið í fréttir og þykir sniðugt. Þetta er líka svo óeðlilegt. Allir saman allsberir í sturtu að rassskella einhvern, þetta er alveg súrt. Það vita allir þjálfarar af þessu og allir sem eru inni í þessum hreyfingum. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi gert eitthvað til að reyna að stoppa þetta. Það hafa þá frekar verið leikmenn innan liðsins, sterkir karakterar, sem hafa fundið að þessu."

Mynd af leikmanni meistaraflokks Fjölnis í handbolta eftir rassskellingu.Mynd/Facebook
Komið langt yfir öll velsæmismörk

Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) vildi lítið tjá sig um málið og benti á Handknattleikssamband Íslands (HSÍ).

Forveri hennar, Viðar Sigurjónsson, sagði á síðasta ári að aðildarfélög ÍSÍ þyrftu að gera ítarlega könnun hjá sér svo hægt væri að stöðva ofbeldi og niðurlægingu, væri slíkt útbreitt. Sagði hann að nauðsynlegt væri að grípa til viðeigandi ráðstafana og að ofbeldi yrði ekki liðið.

Ragnhildur gat ekki svarað því hvort einhverjar úrbætur hefðu verið gerðar.

„Við munum nú kannski heyra í HSÍ og athuga hvað þeir hyggist gera. Við getum alveg fordæmt svona, og ég held að almannarómur hafi nú þegar gert það. Það er enginn sem líður svona ofbeldi, alveg sama hvort það sé einhver hefð fyrir þessu. Þetta er komið langt yfir öll velsæmismörk, og þarna er ég að tala út frá sjálfri mér. Ég get alveg haft mína persónulegu skoðun en það eru þeir (HSÍ) sem þurfa að skoða eitthvað hjá sér."


Tengdar fréttir

"Hefðir eru hefðir"

Algengt er að ungir handboltaiðkendur séu vígðir inn í meistaraflokka félaga sinna með rassskellingum. Nýr liðsmaður Fjölnis fékk að kynnast meistaraflokknum með flötum lófum liðsfélaga sinna á dögunum.

"Þetta er ólíðandi ofbeldi“

Formaður handknattleiksdeildar Fjölnis segir í athugasemdakerfi á Vísi að rassskellingar sem fjallað var um á vefnum fyrr í kvöld séu ólíðandi ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×