Lífið

Önnur myndin í mottuátaki Baldurs

Baldur – Maður með mottu er ekki væntanleg í kvikmyndahús.
Baldur – Maður með mottu er ekki væntanleg í kvikmyndahús. Mynd/Lárus Sigurðarson og Hallmar Freyr Þorvaldsson
Mottumars 2013 er kominn á fullt og tónlistarmaðurinn Baldur Ragnarsson tekur nú þátt í annað sinn. Hann vakti mikla athygli í fyrra með myndaþema sínu, en þar birti hann það sem hann kallaði „hómóerótískar" ljósmyndir af sjálfum sér og mottunni eftir því sem á söfnunina leið.

Baldur hefur nú tekið þessa hugmynd skrefi lengra og býður nú upp fimm myndir eftir landsþekkta listamenn í mars, og er hver og ein slegin hæstbjóðanda hvern mánudag.

Myndefnið er ávallt hið sama, Baldur og mottan, en fyrsta uppboðinu lauk með því að mynd Ingólfs Júlíussonar af Baldri var slegin hæstbjóðanda fyrir 125 þúsund krónur.

Uppboð tvö er stendur nú sem hæst, og er önnur myndin unnin af þeim Lárusi Sigurðarsyni og Hallmari Frey Þorvaldssyni. Þeir hafa unnið mikið fyrir hljómsveitina Skálmöld, en Baldur er einmitt meðlimur þeirrar sveitar.

Myndin er í anda James Bond og er í raun kvikmyndaplakat fyrir kvikmyndina „Baldur – Maður með mottu". Baldri þykir þó rétt að árétta að kvikmyndin er hvorki væntanleg í kvikmyndahús né á BluRay/DVD.

Nú þegar hefur álitleg upphæð verið boðin í myndina og útlit er fyrir að hún muni hækka enn frekar.

Áhugasamir geta kynnt sér uppboð Baldurs á Facebook-síðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.