Lífið

Úr tælensku fangelsi á Hamborgarabúlluna

Brynjar Mettinisson
Brynjar Mettinisson
Brynjar Mettinisson, sem sat í fangelsi í Tælandi í yfir ár, er byrjaður að vinna á Hamborgarabúllunni við Geirsgötu samkvæmt fréttavef Eiríks Jónssonar.

„Þetta er allt að koma," sagði hann kátur á Búllunni í samtali við Eirík og bætti við: „Ég fékk vinnu hér og er ánægður með."

Brynjar og unnusta hans voru á heimleið frá veitingastað í Bangkok sumarið 2011 þegar þau hittu mann frá Ástralíu sem þau könnuðust við.

Skömmu síðar bar lögreglu að sem leitaði á mönnunum. Fíkniefni fundust á Ástralanum en ekkert á Brynjari. Þeir voru báðir handteknir. Í Taílandi eru hörð viðurlög gegn fíkniefnabrotum og um stund horfði Brynjar fram á þrjátíu ára fangelsisdóm vegna málsins.

Það var ekki fyrr en í september á síðasta ári sem Brynjar var látinn laus en íslenska utanríkisráðuneytið hafði umsjón með málinu og sendi meðal annars fulltrúa út til Tælands. Það kom svo í hlut Össurar Skarphéðinssonar að tilkynna íslenskum fjölmiðlum að Brynjar væri laus þann 7. september síðastliðinn. Við það tækifæri bætti hann við: „Ég er stoltur af mínu fólki."

Brynjar er nú aftur kominn heim og steikir borgara fyrir svanga gesti í miðbænum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.