Innlent

Koma á Ofbeldisvarnaráði á fót

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsemi barnahúss verður stórefld nái tillögur UNICEF fram að ganga.
Starfsemi barnahúss verður stórefld nái tillögur UNICEF fram að ganga.
Tæplega 70 prósent stúlkna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi eru oft eða nær alltaf einmana. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fimmtán tillögum sem UNICEF á Íslandi hefur unnið að undanfarna mánuði um leiðir til að minnka ofbeldi gegn börnum.

UNICEF á Íslandi hefur síðastliðið ár unnið að gerð skýrslu um aukningu forvarna gegn hvers kyns ofbeldi gegn börnum. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að vegna umræðu í samfélaginu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum hafi UNICEF ákveðið að gera tillögur sínar og tölfræði úr skýrslunni opinberar þótt skýrslan sjálf komi ekki út fyrr en í febrúar.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er niðurstaða um könnun sem gerð var meðal unglinga í 9. og 10. bekk grunnskóla.

  • 4-5 sinnum líklegra er að drengjum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi líði oft eða nær alltaf illa í skólanum en drengjum sem ekki hafa orðið fyrir slíku ofbeldi.
  • 3-4 sinnum líklegra er að drengir sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi finnist framtíð sín vonlaus.
  • Tæplega 70% drengja sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eru frekar eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að stundum eigi ofbeldi rétt á sér, samanborið við tæp 29% á meðal drengja sem ekki hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.
  • 12 sinnum líklegra er að stúlkur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fullorðins einstaklings reyki daglega.
  • Nær helmingi stúlkna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi finnst framtíðin vera vonlaus oft eða nær alltaf.
  • Tæplega 70% stúlkna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu fullorðins eru oft eða nær alltaf einmana samanborið við 26% stúlkna sem ekki hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.


Tillögur UNICEF eru fimmtán og meðal þess sem lagt er til er að setja á fót Ofbeldisvarnaráð, koma á eftirlitskerfi með dæmdum kynferðisbrotamönnum og stórefla starfsemi Barnahúss. Afar ítarlega umfjöllun um tillögurnar auk frekari upplýsinga um skýrsluna má sjá hér.

Tillögurnar fimmtán eru eftirfarandi:

1. Sett verði á fót Ofbeldisvarnaráð sem sér um samhæfingu aðgerða og framkvæmd forvarna gegn ofbeldi.

2. Reglulegar mælingar á umfangi og eðli ofbeldis gegn börnum verði framkvæmdar.

3. Gögnum sem til eru verði safnað saman og þau greind með skipulegum hætti.

4. Fræðsla í gegnum menntakerfið verði markvissari.

5. Öllum foreldrum verði boðið að sækja foreldrafærninámskeið þar sem í boði verður samskiptafræðsla og almenn fræðsla um ofbeldi.

6. Brotaþolar taki virkan þátt í jafningjafræðslu.

7. Starfsemi Barnahúss verði stórefld.

8. Fjölskyldumeðferð verði í boði um allt land.

9. Huga þarf sérstaklega að forvörnum og verkefnum sem sporna gegn því að félagslegir erfiðleikar gangi í arf.

10. Auka þarf stuðning við aðstandendur brotaþola.

11. Setja þarf saman ferli sem skyldar alla sem vinna með börnum til að sækja fræðslu um ofbeldi gegn börnum, undirrita siðareglur og vinna eftir skýrum verklagsreglum um viðbrögð við málum sem upp koma.

12. Kröfur um forvarnir og viðbúnað til að sporna gegn kynferðisofbeldi verði gerðar til allra aðila sem sækja um leyfi til að halda útihátíð. Gæslufólk og annað starfsfólk útihátíða verði frætt um kynferðislegt ofbeldi og viðbrögð við því.

13. Eftirlitskerfi með dæmdum kynferðisbrotamönnum verði komið á fót.

14. Samdir verði gátlistar fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk sem starfar við heilsuvernd ungbarna, barna og barnafjölskyldna til að auðvelda því að skima eftir ofbeldi.

15. Sem víðast verði sett á stofn hverfisteymi fagaðila (og tilsvarandi teymi í dreifbýli), þ.e. heilsugæslu, skóla, leikskóla, félagsþjónustu og jafnvel lögreglu.

UNICEF á Íslandi leitaði til eftirfarandi aðila við vinnslu skýrslunnar.

Barnaheill, Barnahús, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Barnaverndarstofa, Blátt áfram, félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heimili og skóli, kynferðisbrotadeild lögreglunnar, Landlæknisembættið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Neyðarmóttaka vegna þolenda kynferðisbrota, Olweusarverkefnið, ríkissaksóknari, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót, umboðsmaður barna, velferðarráðuneytið, verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti, Þróunarstofa heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×