Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálagið ekki lægra frá hruni - ánægjulegt segir ráðherra

Magnús Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.
Skuldatryggingaálag á Ísland hefur farið lækkandi undanfarin misseri og hefur ekki verið lægra frá hruni. Álagið er nú ríflega 1,8 prósentustig, en það ræður miklu um á hvaða vaxtakjörum íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki geta nálgast lánsfé í útlöndum.

Skuldatryggingaálag segir til um hvert vaxtaálag er á skuldir, og því lægra sem það er því betri lánskjör bjóðast á markaði. Álagið upp á 180 punkta þýðir að það kostar 1,8 prósent af nafnverði skuldabréfs til fimm ára að tryggja það gegn greiðslufalli.

Lánsfjármarkaðir erlendis hafa verið nær algjörlega lokaðir íslenskum fyrirtækjum frá því um ári fyrir hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Ástæðurnar fyrir erfiðu aðgengi að lánsfé eru fjölþættar, meðal annars vantraust á mörkuðum eftir hrun fjármálakerfisins gagnvart Íslandi. Þetta hefur meðal annars endurspeglast í háu skuldatryggingaálagi.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur skuldatryggingaálagið á Ísland lækkað nokkuð hratt. Skömmu fyrir jól fór það í 184 punkta, eða sem nemur einu komma áttatíu og fjögurra prósenta álag á lánskjör sem í boði eru á markaði. Álagið hefur ekki verið lægra frá hruni fjármálakerfisins, en í upphafi árs 2009 var það meira en 1000 punktar, eða sem nemur 10 prósentustigum. Það þýðir í reynd algjör lokun á lánsfjármörkuðum vegna þess hve lánskjör eru slæm.

Frá þeim tíma hefur það lækkað smátt og smátt, og hefur ríkissjóður í tvígang sótt sér lánsfé á markað. Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnhagsráðherra, segir að lækkun á álaginu séu ánægjuleg tíðindi fyrir ríkissjóð og hjálpi til við öflun lánsfjár, sem getur bætt sjóðsstýingu ríkissjóðs og dregið úr vaxtakostnaði. "Þetta skiptir miklu máli fyrir ríkissjóð. Aðalatriðið er þó að tryggja til langs tíma opna fjármagnsmarkaði fyrir Ísland og íslensk fyrirtæki. Það er ánægjulegt að álagið hafi verið að lækka og fara í rétt átt, en það skiptir mestu að lánsfjármarkaðir verði opnir til lengri tíma."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×