Skoðun

Fjölskyldan sem ekki fær að sitja við sama borð og aðrir

Eiríkur Baldur Þorsteinsson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði á dögunum Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvernig ríkisstjórnin hygðist leysa vanda þeirra sem áfram munu glíma við greiðsluvanda vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu, þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu skuldugra heimila. Nefndi Árni sérstaklega þrjá hópa: Fólk með lánsveð, fólk sem ekki fékk fullnægjandi úrlausn með 110% leiðinni og þá sem keyptu fasteign á versta tíma, það er tímabilinu 2005 til 2007.

Fjármálaráðherra svaraði því til að aðgerðirnar gögnuðust öllum þeim sem vildu leggja eitthvað af mörkum sjálfir. „Hóparnir, sem háttvirtur þingmaður er sérstaklega að tala um, geta einmitt létt greiðslubyrðina sína með því að fá frjálst val og skattalegan hvata til þess að setja sparnaðinn sinn inn á húsnæðislán,“ sagði ráðherra.

Hér er frásögn af fjögurra manna fjölskyldu sem tilheyrir öllum ofantöldum hópum og einum að auki, þeim sem hafa há námslán á bakinu eftir langt og strangt nám.

Vorið 2007 flutti hún heim til Íslands eftir langt og strangt háskólanám erlendis. Það kom aldrei neitt annað til greina en að snúa aftur í heimahagana.

Þar sem ekki var virkur leigumarkaður á Íslandi, eins og hún hafði kynnst úti, keypti fjölskyldan sína fyrstu íbúð eftir að hafa búið inni á foreldrum í rúmlega eitt ár. Eigið fé var nánast ekkert, komandi beint úr námi, en sú leið var farin sem þótti skynsamlegust, að fjármagna kaupin með verðtryggðum lánum. Íbúðin sem kostaði 38 mkr. var fjármögnuð 80% hjá bankanum og 20% hjá lífeyrissjóði foreldra. Undir eðlilegum kringumstæðum átti ekki að vera vandkvæðum bundið að standa undir greiðslubyrði allra lána.

Viðkomandi fjölskylda sat ekki við sama borð og aðrir með 110% leiðinni þar sem ekki var tekið tillit til lífeyrissjóðslánanna og fékk felldar niður 3 mkr. þegar aðrir með sambærilega eign og alla lánsupphæðina hjá bankanum fengu 10 mkr. niðurfellingu.

Eftirstöðvar lána, sem hafa ávallt verið í skilum, eru í dag 52 m. Verð fasteignarinnar hefur ekki hækkað, sem neinu nemur. Neikvætt eigið fé vegna hennar er því 14 mkr. Skv. áætlunum ríkisstjórnarinnar fær fjölskyldan nú 1 mkr. felldar niður til viðbótar sem þýðir að mánaðarleg greiðslubyrði af íbúðarlánum lækkar úr 263 þúsundum í 260. Hvernig er með góðri samvisku hægt að halda því fram við fólk í þessari stöðu að það sé leiðrétting á forsendubresti?

Við tölurnar að framan bætast svo við eftirstöðvar verðtryggðra námslána sem telja í dag á annan tug milljóna og mánaðarleg meðalgreiðslubyrði 50 þúsund krónur. Umræddur forsendubrestur á ekki síður við námslánin en íbúðarlánin. Ef menn viðurkenna að forsendubresturinn hafi í raun og veru átt sér stað, ættu þeir þá ekki að vera samkvæmir sjálfum sér og „leiðrétta“ þau að sama skapi?

Það þarf að afla hreinna tekna upp á 600 þúsund krónur mánaðarlega einungis til að standa straum af ofangreindum lánum. Þá er ótalinn allur sá kostnaður sem fjögurra manna fjölskylda þarf til að hafa ofan í sig og á, tryggingar o.s.frv. Talandi um forsendubrest, þá er þetta ábyggilega ekki sviðsmyndin sem unga parið sá fyrir sér þegar það ákvað á sínum tíma að fara í víking, né þegar það festi kaup á sinni fyrstu íbúð.

Síðustu mánuðir og ár hafa liðið, og eins ótrúlegt og það nú hljómar hefur verið haldið í vonina um betri tíma með nýja aðila við stjórnvölinn sem myndu einn daginn jafna hlut fjölskyldunnar og leiðrétta þá mismunun sem gert hefur líf hennar og margra annarra í sömu stöðu nánast óbærilegt og óyfirstíganlegt.

Þessi fjölskylda er ég og mínir. Engin þeirra aðgerða sem boðið hefur verið upp á hafa létt okkur lífróðurinn til jafns við næsta mann. Í hvert skipti hafa verið ákvæði sem hafa komið í veg fyrir það. Það eina sem við förum fram á er að sitja við sama borð og aðrir, og þurfa ekki að sæta því hróplega óréttlæti að vera svona gróflega mismunað.

Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Árna Páls upplifum við eins og slag í andlitið með blautri tusku. Að sjálfsögðu mun fólk eins og við nýta sér öll úrræði sem boðið verður upp á, en það breytir því ekki að við erum mörgum milljónum á eftir næsta manni sem naut 110% leiðarinnar eins og hún var hugsuð.

Við skorum á Alþingi og ríkisstjórnina að taka þessi atriði til endurskoðunar og leyfa fólki sem okkur að njóta aðgerða til skuldaleiðréttingar til jafns við aðra.




Skoðun

Sjá meira


×