Skoðun

Fjölskyldustefna Garðabæjar – hlustum á raddir allra

Vilhjálmur Kári Haraldsson og Guðfinna B. Kristjánsdóttir skrifar
Garðabær hefur á síðastliðnum árum unnið markvisst að málefnum fjölskyldunnar og skipulagt þjónustu sveitarfélagsins að þörfum hennar. Þegar unnið er á markvissan hátt við að koma til móts við fjölskylduna er í leiðinni unnið að samræmingu vinnu og einkalífs.

Örugg daggæsla fyrir yngstu börnin

Fjölskyldustefna Garðabæjar var fyrst samþykkt á fundi bæjarstjórnar árið 2001 og endurskoðuð fjölskyldustefna var samþykkt 5. júní 2008. Eitt meginstefið í stefnunni er að örugg daggæsla sé til staðar eftir að fæðingarorlofi lýkur, á ungbarnaleikskólum eða hjá dagforeldrum. Garðabær gerir þjónustusamning við dagforeldra sem felur í sér hærri niðurgreiðslur en almennt gerist. Bærinn styður einnig við bakið á dagforeldrum með því að greiða fyrir þá grunnnámskeið, bjóða þeim styrk til að bæta aðstöðu á heimili sínu, veita þeim aðgang að leikfangasafni og með því að gera reglulegar viðhorfskannanir meðal foreldra.

Í nýlegri meistararitgerð kemur fram:

Í Garðabæ hefur tekist að móta stefnu í dagvistunarmálum sem önnur sveitarfélög ættu að líta til. Þar hefur verið stuðst við þjónustusamninga og sveitarfélagið nær þannig að halda stjórn á kostnaðinum sem og auknu eftirliti með starfseminni. Markmið sveitarfélagsins er að hafa dagvistun barna að raunverulegu vali foreldra með því að bjóða háar niðurgreiðslur og gæta að því að dagforeldrar hækki ekki verðskrá sína sem því nemur. Í Garðabæ er að auki rekinn ungbarnaleikskóli sem fyllist hvert ár og börn eru tekin inn á leikskóla eigi síðar en 18 mánaða og stundum fyrr. Þessi stefna virðist samræmast jafnréttismarkmiðum stjórnvalda best af þeim sveitarfélögum sem til greiningar eru.

Frá vöggu til grafar 2012; Herdís Sólborg Haraldsdóttir

Leikskólar opnir allt árið

Leikskólar í Garðabæ eru opnir allt árið en hvert barn þarf að taka sér frí í 4 vikur. Fjölbreytni er mikil í leikskólastarfinu bæði hvað varðar rekstrarform og uppeldisstefnur. Mikil ánægja hefur verið með þjónustu leikskóla í Garðabæ skv. þjónustukönnunum Capacent og meiri en í öðrum sveitarfélögum.

Samræmt skóladagatal

Í Garðabæ velja foreldrar grunnskóla fyrir börn sín og haldnar eru skólakynningar þar sem skólarnir kynna starf sitt. Samræmt skóladagatal þýðir að kennsla hefst á sama tíma að hausti og henni lýkur á sama tíma að vori í öllum grunnskólum bæjarins. Einnig eru vetrarfrí, skipulagsdagar starfsmanna o.fl. samræmd á milli skóla. Tómstundaheimili eru opin í vetrar-, jóla- og páskafríum. Hver skóli hefur sína sérstöðu enda hafa einkaskólar fest rætur í Garðabæ og mikil ánægja mælist með skólana í áðurnefndum þjónustukönnunum Capacent.

Hvatapeningar fyrir öll börn

Hvatapeningar eru til að lækka kostnað við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Hvatapeningar ársins 2013 eru 27.500 krónur á hvert barn á aldrinum 5-18 ára. Ungmenni í tveimur elstu árgöngunum geta fengið hvatapeninga greidda vegna kaupa á korti í líkamsræktarstöð.

Leitast er við að hafa æfingar og tómstundir yngstu barnanna í beinu framhaldi af skólalokum. Til að gera það mögulegt er starfræktur frístundabíll sem keyrir börnin frá tómstundaheimilum grunnskóla í íþrótta- og tómstundastarf.

Atvinnuátak að sumri

Frá árinu 2009 hefur öllum ungmennum í Garðabæ á aldrinum 17-25 ára boðist vinna hjá bænum yfir sumartímann. Átakið er mikið hagsmunamál fyrir fjölskyldur í Garðabæ. 630 ungmenni sóttu um sumarstörf hjá Garðabæ árið 2013. Allir sem uppfylltu skilyrðin um lögheimili í Garðabæ fengu vinnu eins og fyrri ár, flestir við garðyrkjustörf, skógrækt og umhirðu bæjarlandsins.

Samræming vinnu og einkalífs

Áhersla hefur einnig verið lögð á að koma til móts við starfsmenn til að auðvelda þeim að samræma vinnu og einkalíf. Mikilvægt er að starfsmenn fái sveigjanleika til að sinna fjölskylduábyrgð, t.d. umönnun veikra barna og aldraðra foreldra, fái tækifæri til að taka þátt í skólastarfi barna sinna og geti tekið börnin í vinnuna þar sem það á við. Lögð hefur verið áhersla á jafnréttismál þar sem stofnanir hafa gert jafnréttisáætlanir og verið er að vinna að launagreiningu fyrir sveitarfélagið. Sveigjanleiki í starfi, sveigjanlegur vinnutími og starfslok eru göfug markmið og Garðabær leggur sig fram við að koma til móts við starfsmenn þar sem hægt er.

Við skipulagningu á þjónustu og þegar unnið er að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs er grundvallaratriði að viðhafa samráð, eiga góð samskipti við alla aðila og miðla upplýsingum. Þess vegna er lykilatriðið að hlusta á raddir allra.




Skoðun

Sjá meira


×