Skoðun

Heggur sá sem hlífa skyldi

Pétur Gunnarsson skrifar
Þau fara mikinn í Helgarblaðsspjalli sínu Friðrika Benónýsdóttir og Magnús Einarsson, settur dagskrárstjóri útvarpsins. Sjálfur staðnæmdist ég einkum við eftirfarandi:

Friðrika: „Manni hefur líka sýnst að það séu einkum listamenn sem fara fyrir þessum mótmælum, eru þeir ekki bara í grímulausri hagsmunabaráttu þar sem þeir óttast að missa spón úr aski sínum?“

Magnús: „Örugglega óttast þeir að missa spón úr aski sínum þar sem útvarpið hefur verið gríðarlegur vettvangur fyrir þá bæði sem spegill, eða auglýsingagluggi, og vinnuveitandi. Þannig að það er ekkert skrítið þótt þeim sé annt um dagskrá þess. Hins vegar fannst manni umræðan reyndar stundum snúast um það hvar þeir ættu nú að fá hundraðþúsundkallinn sinn og að þeim væri meira umhugað um eigin buddu en framtíð Ríkisútvarpsins, en ég ætla þeim það nú ekki.“

Nú veit ég ekki í hvaða heimi þau lifa Friðrika og Magnús, en varla í raunheimi. Því enda þótt dagskrárgerðarfólk Ríkisútvarpsins leiti óspart til fræðimanna, listamanna og rithöfunda í efnisleit og umfjöllun, þá er aldrei, ALDREI, greidd króna fyrir viðvikið. Það er í raun eitt af undrunum, að ekki sé sagt kraftaverkunum, í rekstri Ríkisútvarpsins sú velvild sem það hefur notið af hálfu fræða- og listageirans, sem í hvert eitt sinn og þess er farið á leit leggur sitt af mörkum – endurgjaldslaust.

Mér er til efs að önnur útvarpsstöð á Vesturlöndum búi við annað eins atlæti, alla vega ekki á Íslandi.

Það væri nú til að kóróna klúðrið ef settum dagskrárstjóra hefði tekist að stía frá þátttöku þessum sjálfboðaliðum Ríkisútvarpsins – sem hér eftir liggja undir því ámæli að með því að mæta til leiks séu þeir að spegla sig, auglýsa og betla!

Þá væri nú fokið í flest skjól fyrir Efstaleitinu og ekki um annað að ræða en biðja þann sem býr enn ofar um hjálp.




Skoðun

Sjá meira


×