Lífið

Boðið upp á sérstaka sólarlandaferð fyrir hinsegin fólk til Kanarí í vetur

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Ragnar Kristinsson og Sigurður Karlsson verða fararstjórar í hinsegin ferðinni.
Ragnar Kristinsson og Sigurður Karlsson verða fararstjórar í hinsegin ferðinni. Daníel
„Þetta er í fyrsta skipti sem svona ferð er farin á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu og þetta leggst rosalega vel í okkur,“ segir Ragnar Kristinsson, sem verður fararstjóri ásamt manni sínum, Sigurði Karlssyni, í svokallaðri hinsegin ferð á vegum Úrvals Útsýnar til Kanaríeyja í desember næstkomandi.



Ferðin var auglýst í kringum Hinsegin daga og segir Ragnar að viðbrögðin hafi verið góð. „Það hafa líka mörg gagnkynhneigð pör sýnt ferðinni áhuga og vilja koma með. Þetta er auðvitað hugsað fyrir samkynhneigða, en þú mátt alveg vera svona aðeins hinsegin til að koma með. Það þarf enginn að leggja fram vottorð um að hann sé „gay“,“ segir Ragnar og hlær.



Ragnar og Sigurður eru öllum hnútum kunnugir á Kanarí eftir að hafa ferðast þangað margsinnis. Hann segir fjölmargt í boði þar fyrir hinsegin fólk og að þar mæti enginn fordómum. „Það kippir sér til dæmis enginn upp við að sjá tvo karla eða tvær konur leiðast. Svo eru sérstakar „gay“ strendur og ýmislegt fleira í boði.“



Ragnar segir að ferðin sé bæði hugsuð fyrir pör og þá sem eru einir á ferð. Enginn þurfi að láta sér leiðast þar sem ýmislegt verði gert til að hrista hópinn saman. „Þetta getur verið góð leið til þess að kynnast öðru fólki og skemmta sér í leiðinni,“ segir Ragnar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.