Aron Kristjánsson valdi í gær þá fjórtán útileikmenn sem munu skipa hóp íslenska landsliðsins á HM á Spáni en fyrsti leikur strákanna okkar verður á móti Rússum á laugardaginn. Aron valdi fjóra nýliða í hópinn sinn því þeir Stefán Rafn Sigurmannsson, Fannar Þór Friðgeirsson, Ólafur Gústafsson og Arnór Þór Gunnarsson eru allir á leiðinni á sitt fyrsta stórmót.
Það eru liðin átta ár síðan það voru svona margir nýliðar á stórmóti en Viggó Sigurðsson var með sjö nýliða í hópnum sem fór til Túnis árið 2005.
„Þetta verður eldskírn fyrir þessa stráka og það eru líka margir leikmenn í stærri hlutverkum en þeir hafa áður verið í. Við erum með kjarna af leikmönnum sem hafa mikla reynslu og svo erum við líka með annan kjarna sem er mjög reynslulítill," segir Aron.
Viggó gaf mörgum lykilmönnum framtíðarinnar sitt fyrsta tækifæri á stórmóti í Túnis fyrir átta árum og nú er vonandi að leikmennirnir sem koma inn núna geti tekið að sér stór hlutverk í framtíðinni.
„Menn verða að vera tilbúnir þegar kallið kemur og það sem við stefnum að er að koma öllum inn í mótið í riðlakeppninni. Það er líka þannig að við erum með lykilleikmenn sem munu bera þungann af sóknarleiknum okkar. Svo verða aðrir að vera tilbúnir að koma með sitt inn í þetta," segir Aron.
Það sem þessi tvö stórmót, HM á Spáni 2013 og HM í Túnis 2005, eiga líka sameiginlegt er að bæði mótin eru fyrsta stórmót íslenska landsliðsins eftir langa þjálfaratíð Guðmundar Guðmundssonar. Guðmundur náði frábærum árangri með íslenska landsliðið, fyrst 2001 til 2004 og svo 2008 til 2012, en aðalgagnrýnin á hans störf var að treysta of mikið á of fáa leikmenn.
Aron hefur sýnt það í sínum fyrstu landsleikjum að hann notar liðið sitt og því má búast við að umræddir fjórtán leikmenn fái allir sitt tækifæri á Spáni. „Nú verða aðrir að taka við keflinu og sýna sig," segir Aron.
Nýliðarnir á HM á SpániStefán Rafn Sigurmannsson
Vinstri hornamaður hjá Rhein-Neckar Löwen
Lék með Haukum á Íslandi
22 ára (fæddur 9.05.1990)
196 sm og 96 kg
6 landsleikir og 5 mörk
Fannar Þór Friðgeirsson
Leikstjórnandi hjá Wetzlar
Lék með Val á Íslandi
25 ára (fæddur 03.06.1987)
181 sm og 85 kg
4 landsleikir og 4 mörk
Ólafur Gústafsson
Vinstri skytta hjá Flensburg
Lék með FH á Íslandi
23 ára (fæddur 27.03.1989)
196 sm og 95 kg
10 landsleikir og 26 mörk
Arnór Þór Gunnarsson
Hægri hornamaður hjá Die Bergische
Lék með Val á Íslandi
25 ára (fæddur 23.10.1987)
181 sm og 85 kg
16 landsleikir og 42 mörk
Nýliðar á síðustu stórmótum:ÓL 2012 - 0
EM 2012 - 2+1
Ólafur Bjarki Ragnarsson
Rúnar Kárason
*Aron Rafn Eðvarðsson
HM 2011 - 3
Kári Kristján Kristjánsson
Oddur Gretarsson
Sigurbergur Sveinsson
EM 2010 - 2
Aron Pálmarsson
Ólafur Andrés Guðmundsson
ÓL 2008 - 2
Björgvin Páll Gústavsson
Sturla Ásgeirsson
EM 2008 - 2
Bjarni Fritzson
Hannes Jón Jónsson
HM 2007 - 2
Markús Máni Michaelsson
Sverre Jakobsson
EM 2006 - 3+1
Heimir Örn Árnason
Sigurður Eggertsson
Þórir Ólafsson
*Vilhjálmur Halldórsson
HM 2005 - 7
Alexander Petersson
Arnór Atlason
Einar Hólmgeirsson
Hreiðar Levy Guðmundsson
Ingimundur Ingimundarson
Logi Geirsson
Vignir Svavarsson
* Kallaðir inn á miðju móti
Fjórir nýliðar fara með á HM á Spáni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið






„Það var engin taktík“
Fótbolti


Sjáðu mörkin úr Bestu: Hetjudáðir fyrirliðans og alvöru innkoma
Íslenski boltinn

