Innlent

Samkomulag um endurbætur á björgunarskipum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samkomulagið var undirritað í dag.
Samkomulagið var undirritað í dag.
Samkomulag var undirritað í dag milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og innanríkisráðherra um greiðslur úr ríkissjóði vegna viðhalds og endurbóta björgunarskipa félagsins. Samkomulagið undirrituðu Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Hörður H. Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Samkomulag Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ríkisins er gert á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 11. mars síðastliðinn, að því er fram kemur í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Jón Gunnarsson. Markmiðið er að tryggja að félagið geti staðið fyrir eðlilegri og nauðsynlegri endurnýjun björgunarskipaflotans enda eru björgunarskip félagsins órjúfanlegur hluti af öryggiskerfi Íslands á leitar- og björgunarsvæði landsins. Jafnframt fól Alþingi innanríkisráðherra að kanna þörf og möguleika á að fá enn öflugri skip á tiltekna staði á landinu og er í samkomulaginu kveðið á um að samningsaðilar skuli ráðast í þá könnun.

Samkomulagið kveður á um 30 milljóna króna árlega greiðslu til verkefnisins árin 2014 til 2021 miðað við verðlag ársins 2012. Slysavarnafélagið Landsbjörg forgangsraðar verkefnum sem liggja fyrir varðandi viðhald og endurbætur á björgunarskipunum og skal skila innanríkisráðuneytinu áætlun eigi síðar en 15. desember 2013. Þá skal félagið árlega afhenda ráðuneytinu áfangaskýrslur um verkefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×