Handbolti

Þjóðverjar stóðust pressuna og unnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Þýska landsliðið reif sig upp í dag eftir tapið á móti Túnis á sunnudaginn og vann fjögurra marka sigur á Argentínu, 31-27, í þriðja leik sínum í A-riðli á HM í handbolta á Spáni. Pressan var mikil á Þjóðverjum í þessum leik enda liðið komið í slæma stöðu með tapi.

Þjóðverjar voru skrefinu á undan frá byrjun og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17-13. Þýska liðið náði mest sex marka forskoti í seinni hálfleik en Argentínumönnum tókst að minnka muninn í tvö mörk á lokasprettinum. Þjóðverjar héldu út og tryggðu sér nauðsynlegan sigur.

Patrick Wiencek var markahæstur hjá Þjóðverjum með sjö mörk en alls skoruðu ellefu leikmenn liðsins í þessum leik. Adrian Pfahl og Patrick Groetzki voru báðir með fjögur mörk. Diego Simonet var markahæstur hjá Argentínu með 9 mörk.

Þýskaland er með fjögur stig eftir þrjá leiki en Argentínumenn hafa nú tapað tveimur leikjum í röð eftir sigur á Svartfjallalandi í fyrsta leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×