„Við erum bara farin að taka við umsóknum núna inni á heimasíðunni og leitum að flottu og hressu liði til þess að vera hluti af landsliði djúsara,“ segir Unnar Helgi Daníelsson Beck, rekstrarstjóri Joe & The Juice á Íslandi.
Nú liggur ljóst fyrir að hinn þekkti djús- og samlokustaður opni í Kringlunni í ágúst. Unnar Helgi er staddur í Kaupmannahöfn um þessar mundir þar sem hann lærir réttu taktana sem djúsari.
„Ég er búinn að vera hér í viku að vinna. Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Svo skemmir það ekki fyrir að hingað kemur fullt af fallegu kvenfólki.“
Samkvæmt íslenskri vefsíðu Joe & The Juice er leitað að hressum og kátum djúsurum sem náð hafa 20 ára aldri. Þar segir að góður tónlistarsmekkur og nettir danstaktar séu alltaf skemmtilegir og að það sé leyfilegt að vera í stuði í vinnunni.
„Við verðum með blöndu af flottum stelpum og strákum. Við leitum því að skemmtilegum karakterum og hressum týpum.“
