Skoðun

Auður án innstæðu

Helgi Magnússon skrifar
Frá því að Auður Hallgrímsdóttir var ekki valin til áframhaldandi setu í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins vorið 2012 hefur hún lýst óánægju með það að hún skuli ekki hafa hlotið áframhaldandi stuðning til stjórnarsetu þar. Þetta hefur komið fram í samtölum við ýmsa og á fundum þar sem hún hefur gert grein fyrir margháttuðum samsæriskenningum sínum sem eiga það allar sammerkt að ekki er fótur fyrir þeim. Dylgjur hennar og rangfærslur eru innstæðulausar með öllu.

Ekki hefur verið tækifæri til að bregðast við þessu fyrr en nú að hún birtir langa grein í Fréttatímanum þann 7. júní þar sem hún hreytir ónotum í ýmsa, þar á meðal mig vegna formennsku minnar í Samtökum iðnaðarins sem ég gegndi frá árinu 2006 til 2012. Ég sit ekki undir tilefnislausum ásökunum af þessu tagi og kem því að eftirfarandi sjónarmiðum varðandi málatilbúnað Auðar.

Samtök atvinnulífsins hafa með höndum tilnefningu á fulltrúum atvinnurekenda í stjórnir níu lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði. Um er að ræða val á helmingi stjórnarmanna viðkomandi sjóða í samræmi við lög og reglur sjóðanna. SA skipar einn fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna samkvæmt ábendingu frá Samtökum iðnaðarins en í öllum öðrum tilvikum velur og skipar framkvæmdastjórn SA stjórnarmennina algjörlega á sína ábyrgð en í sem bestu samráði við aðildarfélög í þeim tilvikum sem þau koma með tillögur eða láta sig málið varða.

Alrangt

Það er því alrangt að framkvæmdastjórar samtakanna taki sér „sjálfskipað tilnefningarvald“ eins og Auður heldur fram í fyrrnefndri grein sinni. Þeirri staðhæfingu hennar er mótmælt sem algjörlega tilhæfulausri.

Á þeim tólf árum sem ég átti sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins, þar af sem formaður í sex ár, var sú vinnuregla viðhöfð að ákvarðanir um val á stjórnarmönnum sem samtökin komu að voru í höndum stjórnar en ekki framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna.

Samtök atvinnurekenda hafa lagt metnað í að velja öflugt og hæft fólk til setu í stjórnum þeirra níu lífeyrissjóða sem hér um ræðir. Kröfur til stjórnarmanna fara vaxandi og hefur FME m.a. sett reglur um hæfisviðtöl sem stjórnarmenn þurfa að gangast undir. Fulltrúum SA hefur sem betur fer vegnað vel í þessum hæfisviðtölum enda hafa samtökin gert sér far um að velja fólk til þessara starfa sem ætla má að rísi undir þeim kröfum sem gerðar eru. Fulltrúar SA eru flestir starfandi í fyrirtækjum en nokkrir eru yfirmenn hjá samtökum í atvinnulífinu. Fyrir því er áralöng hefð og hefur reynsla af störfum þeirra verið með ágætum enda í öllum tilvikum um hæfa og öfluga starfsmenn að ræða.

Auði Hallgrímsdóttur var falið að gegna stjórnarstörfum hjá lífeyrissjóði í fjögur ár. Þó að henni mislíki að hafa ekki verið beðin um að gegna þeim störfum lengur getur hún ekki leyft sér að ráðast að stjórnendum samtaka í atvinnulífnu með rangfærslum og innstæðulausum dylgjum. Auður á að geta gert betur en það.




Skoðun

Sjá meira


×