Viðskipti innlent

Plain Vanilla í viðræðum við fjárfesta í San Francisco

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.
Ekkert lát er á áhuga erlendra fjárfesta á íslenska leikjafyrirtækinu Plain Vanilla. Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, var fyrir helgi kallaður út til San Francisco þar sem hann hefur átt fundi með fjárfestum af stærri gerðinni.

„Þetta er búið að vera mjög gaman,“ segir Þorsteinn Baldur. „Bandaríkin virðast hafa tekið mjög vel við sér og Quizup virðist vera á allra vörum núna.“

Þessi áhugi vaknaði eftir að Plain Vanilla gaf út spurningaleikinn QuizUp, en á aðeins hálfum mánuði hafa meira en þrjár milljónir manna sótt sér þennan spurningaleik í farsíma sína og spjaldtölvur.

„Áhugi fólks á að vinna með okkur hefur aukist mjög mikið, eiginlega á öllum sviðum. Það er æðislegt,“ segir Þorsteinn Baldur.

Enn er þó ekkert í hendi og Þorsteinn vill ekki upplýsa meira meðan viðræður eru á viðkvæmu stigi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru bandaríski fjárfestingasjóðurinn Sequoia Capital og kínverski fjárfestingasjóðurinn Tencent á meðal þeirra, sem hafa sýnt áhuga á að leggja Plain Vanilla til fjármagn svo það geti vaxið hratt og koma inn í rekstur þess.

Þá hefur Fréttablaðið heyrt af því að þessi skyndilegi áhugi fjárfesta erlendis hafi vakið athygli meðal íslenskra fjárfesta, og þeir leiti nú fyrir sér að hugsanlegum tækifærum meðal frumkvöðlafyrirtækja hérlendis, sem hafa verið að sinna þörfum farsímanotenda.

Þorsteinn Baldur mun hafa notað ferðina til að ráðgast við íslenska frumkvöðla í Sílikondal. Á meðal þeirra eru Davíð Helgason forstjóri Unity Technologies, sem er á meðal hluthafanna í Plain Vanilla, og Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson sem nýverið seldi íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Clara til hugbúnaðarrisans Jive fyrir meira en milljarð króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×