Skoðun

Komum heyrandi heim!

Kolbrún Stefánsdóttir skrifar
Nú er rjúpnavertíðin að hefjast og víst er að þeir verða ófáir veiðimennirnir sem halda til fjalla þessa fáu daga sem leyfið varir.

Fátt er meira spennandi en fyrsti dagur á rjúpu og heimkoma með góðan feng er góð tilfinning. Það er hins vegar staðreynd að ekki enda allar veiðiferðir vel fyrir þann sem mundar byssuna.

Þeir sem stunda skotveiði án heyrnarhlífa eru að taka mikla áhættu.

Eitt skot úr byssu getur leitt til varanlegrar heyrnarskerðingar. Hljóðstyrkur úr byssuskoti er talinn vera allt að 140 dB en 150 dB eru talin óbærilegur hávaði. Þessu til samanburðar er hæsti leyfilegi hávaði á vinnustað án heyrnarhlífa 85 dB. Það er því ljóst að hávaði af þessu tagi er afar hættulegur heyrninni.

Þar sem sjón og heyrn eru þau skynfæri sem reynir hvað mest á við veiðar, hlýtur það að vera erfitt þegar fullrar heyrnar nýtur ekki lengur við. Heyrnarskemmd verður ekki bætt eftir á.

Því ætti þeim sem stunda þessar veiðar að vera sérlega umhugað um að verja sig fyrir þessum áhættuþætti og nota þar til gerða eyrnatappa eða heyrnarhlífar.

Leggjum metnað okkar í að vera vel búin og vel varin í öllum okkar veiðiferðum, einkum þar sem skotvopn eru notuð. Látum ekki óþarfa kæruleysi taka frá okkur heyrnina.

Góða veiði og komum vel heyrandi heim.




Skoðun

Sjá meira


×