Skoðun

Skatttekjum sólundað

Tyrfingur Guðmundsson er ekki sérlega ánægður með að fá 249 milljónir úr vasa skattgreiðenda fyrir að gera ekki neitt. Hann hefði heldur viljað fá að gera eitthvað, fá tækifæri sem var fengið öðrum sem vildi græða meira á þjónustu við íslenska fjölbrautaskólanema. Af þessu er birt frétt á vísir.is.

Í fréttinni segir að Vegagerðin hafi boðið út skólaakstur fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2005. Lægstbjóðandi fékk ekki verkefnið heldur aðili sem hugnaðist mönnum hjá Vegagerðinni betur. Skýringar Vegagerðarinnar stóðust ekki lög að mati dómstóla.

Þetta útboð er enn eitt dæmi um vanhæfni í opinberri stjórnsýslu og enn er seilst í vasa skattgreiðenda, sem er gert að greiða Tyrfingi fyrir að gera ekki neitt vegna afglapa embættismanna. Vissulega er það áhugavert að Tyrfingur er lítið glaður yfir því að fá 249 milljónir fyrir að gera ekki neitt. En öllu áhugaverðara væri að rýna í aðra þætti þessa máls.

Hverjir eru þeir menn eða konur sem tóku ákvörðun í þessu máli sem er að kosta skattgreiðendur 249 milljónir á þessu ágæta kreppuári? Þurfa þeir að sæta ábyrgð eða viðurlögum vegna trassaskapar eða að hafa byggt forsendur á spillingu? Hver fékk verkefnið? Bauð sá sem fékk verkefnið einhverjum embættismönnum í veiði eða golfferð árið 2005?

Ekki er ólíklegt að sambærilegar fréttir eigi eftir að birtast áfram í íslenskum fjölmiðlum enda virðast gerendur ekki þurfa að standa skil á trassaskap/vanhæfni/spillingu eða hvað það nú er sem stjórnar gjörðum þeirra. Það þykir ekkert athugavert að dæma búðarþjófa fyrir smáhnupl og rökin fyrir því virðast vera að senda skilaboð til þeirra sem gerast fingralangir.

Embættismenn og þeir sem falin eru trúnaðarstörf af hálfu embættismanna virðast hins vegar geta sólundað hundruðum milljóna af skatttekjum ríkisins án þess að þurfa að standa á því nokkur skil. Engin skilaboð eru send út önnur en þau að Tyrfingur er ekkert sérlega glaður yfir framvindu þessa máls.




Skoðun

Sjá meira


×