Innlent

Speglanir jukust um 167 prósent á einkastofum

MYND/GVA
Í skýrslu sem Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Una Jónsdóttir hagfræðingur gerðu fyrir nokkru kemur fram að eftir að læknum á Landspítalanum var heimilt að sinna læknisverkum utan sjúkrahússins breyttist margt. Í skýrslunni kemur fram að speglanir drógust saman um þriðjung á Landspítalanum en jukust að sama skapi um 167 prósent á einkastofum á næsta árinu.

Í desember 2002 ákvað stjórn sjúkrahússins að afnema sérstakar greiðslur til starfsmanna vegna ákveðinna verka  og launin vegna þeirra verka urðu hluti umsaminna fastra launa. Semsagt var hætt að græða fyrir sérstök verk.

Verkin semsagt fluttust af Landspítalanum og á stofur utan hans og áfram var því hægt að rukka sérstaklega fyrir þessi verk.

„Hér á landi eru til lækningatæki vel yfir meðaltali OECD-ríkjanna sem við berum okkar saman við,“ segir Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, hagfræðingur. Hún bendir á að þegar tækjabúnaður er skoðaður og borinn saman er algengur mælikvarði í löndum að skoða fjölda segulmyndatækja og sneiðmyndatækja.

„Ísland er vel yfir meðallagi hvað varðar þessi tæki, það er að segja hversu mörg tækin eru á 100 þúsund íbúa. VAndi okkar hér er hins vegar sá að þessi tæki eru mun meira fyrir utan sjúkrahúsin hérlendis en tíðkast erlendis. Þegar heyrast svo kveinstafir frá Landspítalanum um að þar skorti tækjabúnað þá er það rétt, að því leyti, að við erum undir meðaltalinu, þegar kemur að fjölda tækjanna inn á sjúkrahúsunum.“

Þetta kom fram í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Á Sprengisandi, í morgun.

Tinna Laufey segir því að tækin séu til á landinu en flest á einkasofum hjá sérfræðingum. Hún bendir þó á að auðvitað þarf fleira af tækjum í strjálbýlu landi og það eigi við um nokkur önnur lönd og svlði líka og nefnir Norður-Finnland og Noreg í því sambandi.

„Við erum því ekki ein á báti hvað þetta varðar og svo má ekki gleyma því að hlutir eins og það að við erum ung þjóð vinnur með okkur,“ segir Tinna Laufey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×