Erlent

Bjóða Kúrdum skaðabætur

Þrjátíu og fimm almennir borgarar létu lífið í loftárás á Kúrda í síðustu viku. nordicphotos/AFP
Þrjátíu og fimm almennir borgarar létu lífið í loftárás á Kúrda í síðustu viku. nordicphotos/AFP
Tyrknesk stjórnvöld bjóða Kúrdum skaðabætur vegna loftárásar sem kostaði 35 almenna borgara lífið í síðustu viku. Þetta er mesta mannfall sem orðið hefur á einum degi í áratugalöngum átökum stjórnarhersins við aðskilnaðarsinnaða kúrda.

„Þetta atvik var á engan hátt vísvitað,“ sagði Bulent Arinc, aðstoðarforsætisráðherra, en hann tók jafnframt fram að stjórnvöld meti það svo að herinn hafi farið að öllu rétt, þótt rannsókn á atvikinu sé reyndar ekki lokið: „Allar niðurstöðurnar staðfesta það að aðgerðina átti að heimila.“

Tyrkneskar herþotur og mannlaus flugfarartæki voru notuð til að gera loftárás á hóp Kúrda við landamæri Íraks, þar sem þeir voru að smygla vörum yfir landamærin.

Kúrdar hafa áður gert árásir á tyrknesk skotmörk frá þessu sama landamærasvæði. Arinc segir að herinn hafi skotið viðvörunarskotum, en fólkið hafi samt ekki numið staðar.

Mikil reiði hefur verið meðal Kúrda vegna þessarar árásar og hefur uppreisnarhreyfing Kúrda hótað hefndum og hvatt til mótmæla.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×