Erlent

Öflugur jarðskjálfti á Ítalíu - sex látnir

Skjálftinn sem var 6 stig að stærð átti upptök um 35 kílómetra norður af borginni Bologna á einungis 10 kílómetra dýpt samkvæmt upplýsingum BBC.
Skjálftinn sem var 6 stig að stærð átti upptök um 35 kílómetra norður af borginni Bologna á einungis 10 kílómetra dýpt samkvæmt upplýsingum BBC.
Að minnsta kosti sex eru látnir og fimmtíu slasaðir eftir að snarpur jarðskjálfti reið yfir norður Ítalíu í nótt. Verið er að leita að fólki í rústum bygginga en sögufræg virki og kirkjuturnar urðu fyrir skemmdum.

Skjálftinn reið yfir rétt eftir klukkan fjögur að staðartíma, hann var 6 stig að stærð og átti upptök um 35 kílómetra norður af borginni Bologna á einungis 10 kílómetra dýpt samkvæmt upplýsingum BBC. Skjálftinn fannst alla leið til Feneyja, Mílanó og Flórens.

Fjölmiðlum ber ekki saman um hversu margir eru látnir en í frétt á vef BBC segir að tveir hafi látist þegar keramik verksmiðja í Sant'Agostino di Ferrara sem þeir unnu í hrundi til grunna. Þá lést kona í Bologna úr hjartaáfalli þegar hún var að rýma hús sitt, Marokkóskur maður lést þegar verksmiðja sem hann var að vinna í hrundi og annar þegar vinnuskúr hans féll saman þá hafa tvö lík fundist í rústum bygginga samkvæmt vef CNN.

Margar byggingar skemmdust í skjálftanum, sumar sögufrægar svo sem virki í San Felice Ferrara og kirkjuturnar í mörgum smábæjum á svæðinu. Þá hafa spítalar verið rýmdir og þúsundir manna flúðu út á götur borga þegar skjálftinn reið yfir.

Tveir eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu, einn upp úr klukkan fimm að stærð 5,1 og síðan annar stuttu síðar upp á 4,1. Skjálftinn er einn sá stærsti sem orðið hefur á þessu svæði en smáskjálftir eru algengir, árið 2009 létust tæplega þrjú hundruð manns í jarðskjálfta sem átti upptök sín við bæinn L'Aquila á mið Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×