Erlent

Gríðarleg öryggisgæsla í Chicago - Össur og Jóhanna á staðnum

Andri Ólafsson skrifar
Frá mótmælunum í morgun.
Frá mótmælunum í morgun. mynd/afp
Gríðarleg öryggisgæsla er í Chicago-borg þar sem leiðtogar Nato-ríkjanna er komnir saman, meðal annars til að ákveða endalok stríðsreksturs í Afganistan. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands eru á fundinum.

Meira en 50 þjóðhöfðingjar verða á fundinum sem hefst í dag en eitt aðalmál hans verður að teikna upp tímatöflu fyrir brotthvarf herafla frá Afganistan og skipuleggja hvernig og í hvaða röð sé best að haga þeim málum.

Nýr forseti Frakka Francois Hollande mun að öllum líkindum lýsa því yfir að Frakkar muni kalla allar sínar sveitir heim á þessu ári, það er einu ári fyrr en forveri hans hafði áætlað.

Annað mikilvægt mál á dagskránni er að ákveða hver eigi að borga fyrir uppbyggingu og rekstur afganskra öryggissveita eftir að Nato-sveitrnar fara endanlega frá landinu árið 2014. Þetta er ekkert smá mál enda er gert ráð fyrir að 350 þúsund menn verði í öryggissveitunum árið 2015.

Mikil öryggisgæsla er í Chicago eftir að lögreglan handtók þrjá aktivista sem hugðust ráðast á kosningaskrifstofu Baracks Obama í borginni með molotov kokteilum, eða bensínsprengjum. Þá er búist við fjölmennum mótmlælum gegn stríðsrekstrinum í Afganistan.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkissráðherra sitja fundinn fyrir hönd Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×