Lífið

Hannes hrifinn af Meryl

„Meryl Streep vinnur mikinn leiksigur í myndinni. Hún er mjög sannfærandi sem Margaret Thatcher og nær henni mjög vel," segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Hannes hefur aldrei farið leynt með dálæti sitt á Margaret Thatcher og sá ævisögulegu myndina um fyrrum forsætisráðherrann, The Iron Lady, á fimmtudagskvöld en hún er sýnd í Laugarásbíó.

„Ég hitti Thatcher fjórum sinnum, tvisvar í móttökum og tvisvar í kvöldverðum. Og í öðrum kvöldverðinum hafði ég tækifæri til að skiptast á skoðunum við hana en ekki aðeins fáeinum kurteisisorðum. Mér er enn minnisstætt margt sem hún hafði þar að segja og í myndinni birtist sú kona sem ég hitti."

Hannes segir myndina hafa verið gagnrýnda fyrir að sýna Thatcher eins og hún sé haldin elliglöpum. „Það er skiljanleg gagnrýni. En ég bendi á að það er gert tvírætt, hvort hún sé í raun og veru haldin elliglöpum eða hvort hún sé að leika á umhverfi sitt. Og hugsanlega hafa handritshöfundarnir ekki haft önnur ráð til að gera hana mannlegri, færa hana nær fólki en þetta," segir Hannes.

Meryl Streep.
En prófessorinn segir myndina ekki pólitíska. Hún sýni Thatcher sem afar mannlega konu.

„Raunar er fróðlegt, að andstaða Thatcher við sameiginlega Evrópumynt varð henni að falli. Menn sjá það skýrar nú að hún hafði þar lög að mæla." -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.