Erlent

Póstmaður svaf úr sér vímuna í útibúi Danske Bank

Allt tiltækt lið lögreglunnar í bænum Kerteminde og nágrenni á Fjóni í Danmörku var kallað út í gærmorgun eftir að öryggiskerfið í útibúi Danske Bank í bænum fór í gang.

Þegar lögreglan kom á staðinn fann hún póstmann sofandi á stól í miðju útibúinu. Sá hafði verið á leið heim úr veislu póstmanna kvöldið áður og var að sofa úr sér áfengisvímuna.

Í ljós kom að gleymst hafði að læsa bakdyrum útibúisins fyrir helgina og þar komst póstmaðurinn inn.

Í ljósi kringumstæðna ákvað lögreglan að handtaka ekki póstmanninn heldur aka honum heim til sín þar sem hann hélt áfram að sofa úr sér vímuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×