Skoðun

Grímsstaðir og opin stjórnsýsla – bréf til Steingríms J. Sigfússonar

Á ríkisstjórnarfundi þann 12. júlí sl. var lagt fram minnisblað Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins varðandi erindi Huangs Nubo og fyrirtækisins Zhongkun, sem áformar að kaupa eða leigja Grímsstaði á Fjöllum.

Huang Nubo hefur lýst áhuga sínum á að gera hluta Grímsstaða að „þjóðgarði", byggja þar lúxushótel og smáhýsi fyrir kínverska auðmenn, auk þess að reka á svæðinu golfvöll, hestabúgarð og loftbelgjaútgerð, svo fátt eitt sé nefnt af því sem fram hefur komið um áætlanir hans á hálendinu.

Í minnisblaði ráðuneytisins er umsókn Zhongkun Europe ehf. um undanþágu frá ákvæðum laga nr. 138/1994 um búsetu stjórnarmanna reifuð og: „Í ljósi þeirra víðtæku undanþágu sem nú þegar er í gildi[…]taldi ráðuneytið ekki mögulegt að setja sem skilyrði að stjórnarmaður yrði að hafa búsetu á Íslandi." Einnig: „Þá hefur ráðuneytið í öllum tilvikum fallist á að veita undanþágur hafi verið eftir því sóst. Hafa undanþágur m.a. verið veittar til kínverskra ríkisborgara…"

Þegar minnisblaðið var gert opinbert sendum við erindi til ráðuneytisins með beiðni um afhendingu gagna um undanþágur sem veittar hafa verið um búsetuskilyrði stofnenda einkahlutafélaga. Vísuðum við til upplýsingalaga og óskuðum eftir að fá afhent öll erindi, lögfræðiálit og minnisblöð tengd afgreiðslu slíkra umsókna. Þá óskuðum við eftir yfirliti yfir þá einstaklinga sem hafa fengið undanþágur frá lögunum, hverjir sóttu um undanþágur fyrir þá og kennitölur þeirra.

Svar ráðuneytisins barst 20. ágúst. Í því er beiðni okkar hafnað með vísan til þess að upplýsingalög veiti rétt til aðgangs að tilteknu máli og að það feli í sér að ekki sé hægt að „…óska eftir aðgangi að upplýsingum um ótiltekinn fjölda mála".

Við sendum ráðuneytinu nýtt erindi, enn með vísan til upplýsingalaga. Í ljósi þess að fyrri beiðni okkar þótti of almenn báðum við nú um upplýsingar um undanþágur sem veittar höfðu verið kínverskum ríkisborgurum eingöngu, enda er þess sérstaklega getið í minnisblaðinu að ótalinn fjöldi þeirra hafi fengið slíka undanþágu. Þá báðum við um afrit af yfirliti viðkomandi málaskrár.

Þann 30. ágúst hafnar ráðuneytið beiðni okkar þar sem erindið sé of almennt eða eins og segir í svarinu: „Þrátt fyrir að beiðni um aðgang sé þrengd með vísan til kínverskra ríkisborgara, skortir enn á að beiðnin sé nægilega tilgreind við tiltekið mál." Einnig: „Þá skal tekið fram að upplýsingaréttur almennings nær aðeins til þeirra gagna sem eru fyrirliggjandi hjá stjórnvöldum, en afgreiðsla erinda um undanþágur er ekki aðgreind eftir ákveðnu þjóðerni hjá ráðuneytinu." Þó var tiltekið í minnisblaðinu að undanþágur hafi verið veittar til kínverskra ríkisborgara.

Það vekur spurningar um gæði stjórnsýsluákvarðana ef þær eru annars vegar grundvallaðar á tilteknum gögnum (í þessu tilviki gögnum um ákveðnar undanþágur, sbr. minnisblaðið) sem svo í öðru samhengi eru talin svo almenn að ekki sé hægt að ná utan um þau í skilningi upplýsingalaga. Þá vekur það spurningar um þann hug sem liggur að baki svarinu að erindinu er synjað, að því er virðist vegna þess að það er heimilt að synja því – en ekki vegna þess að það sé óheimilt að veita upplýsingarnar. Til að bæta gráu ofan á svart er klykkt út með loforði um aðgang að gögnum ef „beiðni er nægilega tilgreind, t.d. við málsnúmer" en í sama bréfi er því hafnað að veita aðgang að gögnum þar sem málsnúmer koma fram.

Við gætum farið lögboðnar leiðir og kært málið til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál upp á von og óvon. Ef það brygðist gætum við biðlað til umboðsmanns Alþingis.

Hin leiðin er að gera þriðju tilraun hjá ráðuneyti þínu og, í stað þess að vísa til laga, minna á stefnu þessarar ríkisstjórnar, loforð um opna og gagnsæja stjórnsýslu og að málið gefi stjórnvöldum gott tilefni til að efna þau loforð.

Það er okkar skilningur að ekkert í lögum banni afhendingu þeirra gagna sem við viljum fá aðgang að. Frá okkar bæjardyrum séð er það orðhengilsháttur og þvergirðingur að fela sig á bak við þá staðhæfingu að ekki sé um „tiltekið mál" að ræða. Málið er nægilega „tiltekið" til að vera grundvöllur ákvörðunar um að veita Huang Nubo og tveimur starfsmönnum hans undanþágu frá lögum. Hvers vegna er þá ekki hægt að afhenda gögnin sem ráðuneytið byggir þessa ákvörðun á jafnvel þótt það sé samkvæmt bókstaf laganna ekki skylda?

Í ljósi þess að ríkisstjórnin samþykkti í samstarfsyfirlýsingu sinni, að „…beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum…" er það von okkar að þú endurskoðir ákvörðun ráðuneytisins og opinberir þau gögn sem liggja til grundvallar því að veita Huang Nubo og félögum leyfi til að stofna íslensk félög, stjórna þeim og úthluta þeim íslenskum kennitölum.

Við minnum á að þetta mál er umdeilt og því nauðsynlegt að allar ákvarðanir stjórnvalda í málinu séu skýrar og skiljanlegar og þannig verði komið í veg fyrir vangaveltur um að annarlegir hagsmunir liggi að baki ákvörðunum.




Skoðun

Sjá meira


×