Innlent

Fleiri rauðir dagar hér en í nágrannalöndum

Margir Íslendingar nýta páskafríið til að fara á skíði.
Margir Íslendingar nýta páskafríið til að fara á skíði.
Lögbundnir frídagar hér á landi, utan helga, eru tólf talsins. Það er meira en í nágrannalöndunum. Oft lenda rauðu dagarnir á helgum. Formaður ASÍ segir að ekki hafi skapast samstaða um uppbótarfrídaga í þeim tilfellum.

Lögbundnir frídagar, svokallaðir rauðir dagar, eru almennt fleiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Að frátöldum þeim dögum sem eru bundnir sunnudögum eru tólf frídagar á ári, að frátöldum aðfangadegi og gamlársdegi, sem eru lögbundnir frídagar til hálfs.

Í Svíþjóð eru dagarnir ellefu, tíu í Noregi og Finnlandi og níu í Danmörku.

Fimm þessara tólf daga eru hins vegar háðir því á hvaða vikudegi þeir lenda og sum ár slær tveimur dögum saman. Til dæmis bar sumardaginn fyrsta upp á skírdag í fyrra.

Síðasta ár var reyndar óvenju óheppilegt frá sjónarmiði almennra launþega þegar aðeins átta af dögunum tólf lentu á virkum dögum. Þar fyrir utan lentu aðfangadagur og gamlársdagur á laugardögum.

Þegar litið er til síðustu fimm ára hafa frídagarnir á virkum dögum verið allt frá átta upp í alla tólf, en það var árið 2008.

Í ár verða dagarnir tíu þar sem nýársdag og sautjánda júní ber upp á sunnudaga. Næsta ár lítur mjög vel út þar sem allir frídagar verða á virkum dögum.

Í þessu sambandi hefur oft verið minnst á fyrirkomulagið í Bretlandi þar sem uppbótarfrídagur kemur í stað lögboðins frídags sem ber upp á helgi.

Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir umræðuna um að taka upp svipað fyrirkomulag hér á landi koma reglulega upp í kjaraviðræðum.

„Þetta myndi hins vegar kosta peninga og atvinnurekendur hafa ekki viljað ljá máls á þessu.“

Að sögn Gylfa hefur einnig komið til tals að breyta fyrirkomulagi fimmtudagsfrídaga, til dæmis með því að færa þá eða safna frídögunum saman í lengra frí.

„Margir þeirra daga eru hins vegar kirkjudagar og koma þannig inn í kjarasamninga. Það yrði því ekki einfalt mál og svo eru líka skólafrí og annað á sama tíma. Það myndi því kalla á mikla og víða samstöðu á vinnumarkaði. Þegar allt kemur til alls eru hins vegar skiptar skoðanir um málið þar sem sumum finnst gott að fá frí á fimmtudögum. Þá taka jafnvel einhverjir út sumarfrísdag á föstudeginum til að fá langa helgi.“

Gylfi segir hins vegar að mikið hafi unnist í að fjölga sumarfrísdögum í kjarasamningum síðustu ára, og auk þess hefur sveigjanleiki launþega varðandi sumarfrí aukist umtalsvert.thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×