Viðskipti innlent

Endurskipulagning Fasteignar í uppnámi

olikr@frettabladid.is skrifar
Myllubakkaskóli EFF á og rekur fjölda fasteigna víða um land, alls um 125 þúsund fermetra. Þar á meðal eru velflestar opinberar byggingar í Reykjanesbæ.Fréttablaðið/Pjetur
Myllubakkaskóli EFF á og rekur fjölda fasteigna víða um land, alls um 125 þúsund fermetra. Þar á meðal eru velflestar opinberar byggingar í Reykjanesbæ.Fréttablaðið/Pjetur
Endurskipulagning Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF) tefst, þar sem ekki liggur fyrir hvort Seðlabanki Íslands fellst á skuldauppgjör í evrum við þrotabú Glitnis. Stjórn og aðstandendum félagsins var kynnt staðan á fundi fyrir helgi. „Þar var upplýst að þetta færi að líkindum ekki óbreytt í gegn,“ segir Ingvi Jónasson, framkvæmdastóri EFF.

Sveitarfélög þrýsta á um að niðurstaða fáist fyrir áramót til þess að færa megi rétt í ársreikninga skuldbindingar vegna EFF. Hlutur Reykjanesbæjar er einna stærstur, en bæjarfélagið stóð að stofnun EFF árið 2003 og seldi fasteignir sínar að mestu inn í félagið, en greiðir svo leigu fyrir afnot af þeim.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og stjórnarformaður EFF, segir félagið ekki enn hafa fengið formlega afstöðu Seðlabankans til samninganna við slitastjórn Glitnis. „Þeir snúa líka að uppgreiðslu lánanna og möguleika sveitarfélaganna á að kaupa til baka eignir og greiða lánin. Og þá þarf svar Seðlabankans við því hvort hann sætti sig við það, eða hvort hann vilji að þetta verði allt greitt út í krónum,“ segir Árni en bætir því við að félagið sé búið undir hvora leiðina heldur sem er. Þetta hafi verið rætt við Glitni og breytti væntanlega litlu um samningana.

Hvað sveitarfélögin varðar segir Árni að á þeim vettvangi hafi helst verið gagnrýnd gengisáhætta tengd samningunum. „En ef það breytist yfir í krónur ætti það að vera jákvætt að mati flestra sveitarfélaganna, enda tekjurnar okkar í krónum.“ Ákvörðun Seðlabankans breyti hins vegar ekki miklu fyrir fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna, því leigusamningar þeirra byggi á samningum við Fasteign.

„Ekki er búist við að breytingar verði á uppgjörum vegna hvorrar leiðarinnar sem yrði valin. Þeim liggur helst á að ljúka þessu fyrir áramót til þess að hreinsa megi þetta upp og ganga frá ársreikningum.“ Vinna við málið hafi hins vegar staðið í um tvö ár og allan tímann hafi menn talið að henni væri að ljúka. „En nú vonast menn til þess að vera komnir á lokasprettinn.“

Í Seðlabankanum fengust þau svör að bankinn tjáði sig ekki um einstök mál eða umsóknir um undanþágur frá gjaldeyrishöftum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×