Skoðun

Við viljum gefa

Hilmar Örn Hilmarsson og Jóhanna G. Harðardóttir skrifar
Æ fleiri Íslendingar eiga líf sitt því að þakka að hafa þegið líffæri að gjöf. Eftirspurnin eykst þökk sé framförum í læknavísindum og æ fleiri bíða gjafalíffæris. Dýrmætari gjöf er ekki hægt að gefa.

Skilyrði þess að mega nema líffæri úr látnum manni er að hann hafi lýst yfir vilja til þess í lifanda lífi eða að aðstandendur samþykki. Fram hefur komið að í 40% tilvika segja aðstandendur nei.

Þess vegna er full ástæða til að minnast þess að þótt fé deyi og frændur, þá deyr orðstír aldrei. Sá sem þarf að kveðja lífið, en gefur það um leið öðrum að skilnaði, öðlast góðan orðstír sem tengist þakklæti og virðingu – og lifir. Það er ástvinum huggun harmi gegn.

Líf liggur við

Ásatrúarfélagið styður átak SÍBS, "Ég vil gefa", þar sem hvatt er til samræðna um líffæragjafir. Innbyrðis hafa heiðnir menn ólíkar hugmyndir um það hvort látinna bíði annað líf umfram það sem þeir eiga í minningaheimi eftirlifenda en þó erum við almennt viss um að velferð okkar í eilífðinni sé ekki undir því komið að við tökum með okkur öll líffærin í gröfina.

Á næstu dögum sendir Ásatrúarfélagið öllum félagsmönnum sínum, um 2.100 talsins, óútfyllt líffæragjafaskírteini sem þeir verða hvattir til að fylla út og ganga með á sér. Um leið hvetjum við vini okkar í öðrum trúfélögum og utan þeirra til að taka jákvæða afstöðu til líffæragjafa. Líf liggur við.




Skoðun

Sjá meira


×