Gagnrýni

Eru ekki allir í stuði?

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar
Gyrðir Elíasson Í Suðurglugganum finna Gyrðismenn sig á kunnulegum slóðum, segir gagnrýnandi. “Allt gómsæta Gyrðisstöffið er þarna í réttum hlutföllum.”
Gyrðir Elíasson Í Suðurglugganum finna Gyrðismenn sig á kunnulegum slóðum, segir gagnrýnandi. “Allt gómsæta Gyrðisstöffið er þarna í réttum hlutföllum.”
Suðurglugginn

Gyrðir Elíasson

UPPHEIMAR



Sú tilfinning að ná ekki í gegn, ná ekki sambandi við annað fólk, standa utan við og á skjön við mannlegt samfélag, er líkt og rauður þráður gegnum allt höfundarverk Gyrðis Elíassonar.

Þetta kemur m.a. fram í búsetu sögumanna. Þeir eru oft einir, tímabundið, eða bara yfir höfuð – hafa ýmist verið yfirgefnir eða sjálfir tekið hatt sinn og staf og „lagst út". Komið sér fyrir á eyðilegum stað, í kofa, í sumarhúsi, á gistiheimili utan alfaraleiðar, eða jafnvel á hóteli í smábæ.

Sögumaður Suðurgluggans er staddur ekki langt frá Reykjavík, í bústað vinar síns, sem hann hefur fengið léðan til þess að fá næði til að skrifa bók. „Enginn kemur að hitta mig, og það hentar mér vel," segir hann. Glíman við sköpunina tekur á og hann á í mestu erfiðleikum með að koma nokkru frá sér. Hann notar Olivetti-ritvél til skriftanna, en hún er hálfómöguleg, eins og rithöfundurinn sjálfur.

Útvarpið er glugginn út í veröldina, sögumaður hlustar á fréttir og þannig tengir heimurinn sig við hann; ástandið í Líbýu, Kólumbíu og Pakistan, hneyksli skekur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og svo eru fregnir af skattaparadísum, sem sögumaður vill kalla skatthol. Gyrðir Elíasson þarf ekki að hrópa á torgum til þess að koma samfélagsádeilu til skila, heldur seytlar hún hljóðlega meðfram sögunni.

Útlegð persóna Gyrðis er oft sjálfskipuð og einsemdin sjálfvalin. Tilfinninguna fyrir einangrun þeirra fær lesandi þó ekki aðeins vegna staðsetningarinnar. Maðurinn er alltaf einn, jafnvel þegar hann er með öðrum. Sögumaður Suðurgluggans skrifar bréf sem hann sendir aldrei. Þau bréf sem hann fær sjálfur brennir hann óopnuð. Í bakgrunni er ástarsamband sem farið hefur út um þúfur, þó að ekki fái lesendur að vita mikið um það. Það hefur orðið eitthvert rof í samskiptum hans við annað fólk.

Í Suðurglugganum finna lesendur sig æ ofan í æ á kunnuglegum slóðum. Það er bókstaflega hægt að lesa bókina með tékklista á lofti og merkja við stef sem eru síendurtekin í verkum höfundarins. Þarna er hundur að sniglast. Mikið kaffi er drukkið. Dónalegt afgreiðslufólk sem sögumanninum stendur stuggur af … Allt gómsæta Gyrðisstöffið er þarna í réttum hlutföllum.

Vísanir í bókmenntaverk, ísmeygileg fyndni og ádeila á samtímann. Allt er þetta óaðfinnanlega gert, eins og venjulega, og mikill fengur fyrir þau sem eru hrifin af Gyrði. Og fyrir þau sem hafa aldrei fílað hann (nýlega komst ég að því að þannig eintök eru til): Þið kunnið ekki gott að meta og munuð líklega ekki fíla þessa bók heldur.

Ef menn eru að velta vöngum yfir fyrirsögninni, þá kemur þessi setning nokkrum sinnum fyrir í bókinni. En frómt frá sagt, þá eru þar fáir í stuði.

Niðurstaða: Yndisleg bók, klæðskerasniðin að smekk þeirra sem hafa smekk fyrir verkum Gyrðis Elíassonar. Nú mega jólin sko koma fyrir mér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×