Skoðun

Hæstaréttardómur yfir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
Nýfallinn dómur hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka er áfellisdómur yfir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og eftirlitsstofnunum á fjármálamarkaði. Dómurinn er sigur fyrir lántakendur en jafnframt mikill álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina sem brást heimilum og fyrirtækjum alvarlega í þessu máli og kaus að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja.

Flumbrugangur í lagasetninguNiðurstaða hæstaréttar er í samræmi við þá gagnrýni sem ég, samtök lánþega og margir fleiri hafa sett fram vegna endurútreikninga bankanna í kjölfar laga nr. 151/2010 sem ríkisstjórnin keyrði í gegnum þingið í miklum flýti í desember 2010. Gagnrýnin beindist að því að ekki væri í lögunum tekið tillit til þess að skuldari hefði þegar greitt inn á höfuðstól lánsins, beitingu vaxtavaxta og hvenær byrja ætti að reikna vexti Seðlabankans á lánin, afturvirkni vaxta o.s.frv.

Ég benti á ófullkomleika frumvarpsins sem Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, flutti með þessum lögum. Ég sagði að ekki hefði verið vandað til verka við lagasetningu á þinginu og að þeir sem myndu hagnast á þessum flumbrugangi væru eigendur bankanna, erlendir kröfuhafar og ríkið í tilfelli Landsbankans.

Í ársbyrjun 2011 setti ég jafnframt á heimasíðu mína reiknivél sem ég kallaði Lánareikni (http://gudlaugurthor.is/2011/05/lanareiknir/) til að vekja athygli á því óréttlæti sem í lögunum fólst. Ég hvatti fólk þá og hvet enn til að setja forsendur lána sinna inn í Lánareikninn. Þar getur fólk sett inn sínar eigin lánaforsendur og metið hvaða áhrif það hefur að nota reikniaðferð ríkisstjórnarinnar í samanburði við reikniaðferðir sem Gunnlaugur Kristinsson endurskoðandi og Veritas lögmenn kynntu.

Ég hvet það fólk sem er með erlend lán að setja forsendurnar sínar í Lánareikninn. Niðurstaða Hæstaréttar er í samræmi við Veritas lögmenn.

Varnaðarorð voru viðhöfðVarnaðarorð komu úr mörgum áttum en ríkisstjórnin gerði ekkert í málinu. Frumvarpi um flýtimeðferð gengislána var hafnað. Frumvarpi um að tekið yrði tillit til greiðslu inn á höfuðstól sömuleiðis. Við setningu Árna Páls-laganna var því haldið fram að lögin myndu eyða óvissu! Það gerðist ekki, óvissan jókst. Frumvörpum okkar sjálfstæðismanna um flýtimeðferð gengislána var ítrekað hafnað. Sigurður Kári flutti frumvarpið fyrst 24.06.2010 og þrátt fyrir ítrekaða framlagningu fór það aldrei í gegn.

Hverjir tapa?Hvaða afleiðingar hafa rangir útreikningar bankanna haft fyrir fólk og fyrirtæki í landinu? Enginn veit það, en við vitum að afleiðingarnar eru alvarlegar. Við vitum ekki hversu alvarlegar. Hversu margir hafa misst eignir, atvinnutæki og fyrirtæki vegna þessa? Ég hef spurt um stöðu þessara aðila á fundum efnahags- og viðskiptanefndar en það er, kannski skiljanlega, lítið um svör.

Það eina sem við vitum er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og eftirlitsstofnanir tóku hagsmuni fjármálafyrirtækjanna fram yfir hagsmuni lántakenda.

Ríkisendurskoðun komi upp reiknivélÞví miður er óvissunni ekki eytt. Það á eftir að fá úr ýmsum álitamálum skorið. Almenna reglan er að fjármálafyrirtækin fara með öll álitamál fyrir dómstóla. Yfirlýsingar stjórnvalda um að lok fáist í þau fyrir áramót munu ekki ganga eftir. Mikilvægt er að fólk geti treyst að endurútreikningar bankanna standist. Aðstöðumunur á milli lántakenda og fjármálafyrirtækjanna er mjög mikill.

Ég tel því að þingið eigi að beita sér fyrir því að fólki verði gert kleift að sækja sér ráðgjöf til óháðra aðila án verulegra fjárútláta. Að fólk hafi aðgang að reiknivél svipaðri þeirri sem er á heimasíðunni minni Gudlaugurthor.is. Eftirlitsaðilar hefðu átt að koma slíkri vél upp fyrir löngu síðan. Þeir hefðu átt að gæta hagsmuna lántakenda en þeir gerðu það ekki. Þess vegna legg ég til að Ríkisendurskoðun verði falið þetta verkefni. Það er það minnsta sem hægt er að gera fyrir fólk og smáatvinnurekendur.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×