Innlent

Vilja minnisvarða og minjagripi um ð

Stefán Pálsson, Anton Kaldal Ágústsson og Gunnar Vilhjálmsson á Ingólfstorgi þar sem þeir vilja að stytta verði reist af Matthew Parker, föður bókstafsins.
Stefán Pálsson, Anton Kaldal Ágústsson og Gunnar Vilhjálmsson á Ingólfstorgi þar sem þeir vilja að stytta verði reist af Matthew Parker, föður bókstafsins. Fréttablaðið/Valli
Hollvinasamtök bókstafsins ð vilja að reist verði stytta af Matthew Parker, „föður ð-sins" á Ingólfstorgi. Forsvarsmenn samtakanna hafa útbúið tillögur fyrir borgaryfirvöld í þessu skyni.

„Það sem er athyglisvert í þessu er að þessi stafur sem menn náttúrulega túlka sem alíslenskan og hampa fram og til baka og vekja athygli erlendra ferðamanna á skuli hafa þessar erlendu rætur og að það sé fyrst og fremst nokkrum útlendum mönnum að þakka að við séum að notast við hann. Þá sérstaklega þessum breska erkibiskup, sem aldrei kom hingað og vissi nú sennilega ekkert sérlega mikið um landið," segir Stefán Pálsson, sem er einn af hvatamönnunum ásamt Antoni Kaldal Ágústssyni og Gunnari Vilhjálmssyni.

Þegar prenttæknin kom fram og farið var að prenta gamla texta þótti Parker ómögulegt annað en að láta útbúa stafatákn fyrir stafina þ og ð, að sögn Stefáns. Ð kom iðulega fyrir í enskum miðaldasögum, sem Parker var áhugamaður um. Það er því helst honum að þakka að stafurinn komst aftur inn í íslenskuna um miðja nítjándu öld.

„Það hefði verið tómt mál að tala um að Íslendingar hefðu getað farið að pikka hann upp eitthvað sérstaklega, ef þessi stafur væri ekki til í prentsettum."

Félagarnir vilja láta reisa minnismerkið á Ingólfstorgi, nálægt þeim stað þar sem Landsprentsmiðjan var þegar hún prentaði bókstafinn í fyrsta skipti um miðja nítjándu öld. Stefán segir hugmyndina útpælda en nú sé fjármögnun á verkinu vandamálið.

„Búið er að planta hugmyndinni og þá treystum við því að velgjörðarmenn stökkvi til. Til dæmis bera margir þennan staf í nafni sínu og það er kannski ekki ósanngjarnt að þeir leggi eitthvað sérstaklega af mörkum."

Stefán og félagar sjá mikil færi í ferðamennsku. „Hingað kemur straumur breskra ferðamanna. Þeir sæju þá landa sinn á svona áberandi stað, þar sem er mjög stutt í svona flíspeysuverslanir og annað slíkt. Ð-tengdur túristavarningur gæti alveg skotið nýrri stoð undir efnahagslífið."

Þeir félagar hafa einnig, ásamt Steinari Inga Farestveit, skrifað ævisögu ð-sins, sem kemur út á næstunni.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×