Skoðun

Fólkið á að ráða – það er lýðræði

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
1. Um hvað snýst þetta allt saman?

2. Er þetta ekki allt of flókið?

3. Hefur fólk eitthvert vit á þessu?

4. Verður nokkuð farið eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar?

Svörin eru í sömu röð:1. Þetta snýst um hvort stjórnar-

skránni er skipað af öllu fólki

eða einhverjum útvöldum.

2. Nei.

3. Já, við vitum öll hvað við viljum.

4. Já.

Spurningarnar eru á mannamáli og auðskiljanlegar. Engin vandkvæði eru á því að túlka niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. Já þýðir já og nei þýðir nei.

Við stöndum á tímamótum. Fólkinu í landinu er gefinn kostur á að segja skoðun sína á tillögum að nýrri stjórnarskrá. Hingað til hefur verið litið á það sem einkamál stjórnmálamanna/Alþingis og lögfræðinga.

Heildarendurskoðun á þessu grundvallarplaggi stjórnskipunarinnar og undirstöðu laga hefur ekki tekist til þessa. Stjórnlagaráðinu tókst það. Kannski er það vitnisburður um að stjórnmálamenn og lögfræðingar eigi að halda sig til hlés hvað þessi efni varðar.

Margir hafa allt á hornum sér varðandi þá aðferð er notuð. Gæti það verið vegna þess að í gegnum árin hefur orðið til í landinu hópur fólks sem telur sig betur til þess fallið að ráða ráðum okkar og hafa vit fyrir okkur en við getum öll í sameiningu?

Það er bráðnauðsynlegt í kjölfar þeirra þjóðfélagslegu hamfara sem við höfum gengið í gegnum að hrista upp í valdahlutföllum þjóðfélagsins. Nú er tækifæri.

Núna er tækifæri fyrir fólk að sýna hug sinn til þeirrar vinnu sem það sjálft hefur unnið á Þjóðfundi og í stjórnlagaráði. Allir kjósendur hafa tækifæri, ekki einungis einhverjir útvaldir eða sjálfskipaðir.

Spurningarnar fimm sem fylgja meginspurningunni eru um róttækar breytingar á stjórnarháttum okkar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður því hvort þessar róttæku breytingar verða lagðar fram í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskrá.

Hvað er lýðræði? Svar: Fólkið á að ráða.




Skoðun

Sjá meira


×