Skoðun

Að leggja til grundvallar

Sveinn Andri Sveinsson skrifar
Í kosningum þeim sem fram fara næstkomandi laugardag, þann 20. október, um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, hljóðar fyrsta spurningin sem kosið er um þannig:

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Einhverjir kjósenda vilja ekki sjá neina endurskoðun á stjórnarskránni og segja einfaldlega nei eða tjá afstöðu sína með því að sitja heima. Síðan eru þeir án efa margir sem hugnast gæti einhver ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs en greiða engu að síður gegn tillögunum, svo ekki megi túlka atkvæði þeirra sem stuðning við einhverja þvælu.

Segi meirihluti kjósenda nei við þessari spurningu, er ekki hægt að túlka þá niðurstöðu öðruvísi en svo að ekkert af þeim atriðum sem lögð eru til í hugmyndum stjórnlagaráðsins eigi að koma við sögu í hugsanlegri endurskoðun stjórnarskrárinnar, jafnvel þótt sumir þeirra sem svo greiddu atkvæði gætu hugsað sér að styðja eitthvað í tillögunum. Sama má í raun segja ef þeir sem segja nei og þeir sem sitja heima eru meirihluti kosningabærra. Málið er þá komið á upphafsreit.

Ef meirihluti kjósenda segir já við þessari spurningu, hvaða ályktun er hægt að draga af því? Úr tveimur mikilvægum spurningum þarf þá að leysa.

1. Er hægt að slá því föstu, að þeir sem segi já við þessari spurningu séu að ljá hverri einustu grein tillagnanna atkvæði sitt (undanskilin þau álitaefni sem greitt er sérstaklega atkvæði um) eða er hugsanlegt að með atkvæði sínu sé viðkomandi aðeins að lýsa yfir stuðningi við hluta tillagnanna?

Út frá sjónarmiðum aðferðafræði og almennri rökhyggju er ógerlegt að segja til um það hvert ef eitthvert af ákvæðum tillagnanna nýtur almenns stuðnings. Miðað við það hversu margar greinar er um að ræða og sem taka á mismunandi atriðum er augljóst að ekki er hægt að lesa út úr já-atkvæðum þann skilning að allar greinar tillagnanna njóti meirihlutastuðnings þjóðarinnar. Veganestið fyrir tilvonandi höfunda frumvarps að stjórnarskrá er því lítið sem ekkert.

2. Hvað þýðir orðasambandið „að leggja til grundvallar“?

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor og fulltrúi í stjórnlagaráði hefur látið hafa það eftir sér að verði niðurstaðan já eigi frumvarpið að fara orðrétt í gegnum Alþingi. Þetta er algerlega fráleitt því það eina sem er alveg ljóst af orðalagi spurningarinnar er að tillögur stjórnlagaráðs eiga ekki að verða lagðar fram í óbreyttri mynd sem frumvarp fyrir Alþingi, því þá hefði verið spurt hvort leggja ætti tillögurnar fram sem frumvarp.

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis kvað hins vegar upp úr með það að nefndin ætti að leggja það fram efnislega eins fyrir Alþingi, þó orðalag gæti tekið breytingum.

Orðið grundvöllur er loðið og teygjanlegt hugtak. Þannig er það mjög algengt í samningum eða samskiptum aðila þar sem setja þarf saman texta, að einn leggur fram uppkast eða hugmyndir sem menn verða ásáttir um að geti verið grunnur eða grundvöllur að samningi eða reglum. Slíkur grunnur getur síðan tekið margháttuðum breytingum, sumu er breytt að miklu leyti en öðru í litlu, eitt er tekið út á meðan öðru er bætt inn í. Með hliðsjón af almennri málvitund og beitingu orðasambandsins „að leggja til grundvallar“ er því ljóst að tillögur stjórnarskrárnefndar eru einungis uppkast eða hugmyndir sem algerlega á eftir að vinna nánar, áður en frumvarp er lagt fyrir Alþingi.

Síðan má ekki gleyma því að samkvæmt orðanna hljóðan snýst spurningin aðeins um það hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs sem frumvarp fyrir Alþingi. Ekki er spurt að því hvort kjósandinn vilji að tillögurnar eða einstök ákvæði þeirra eigi að fara inn í stjórnarskrá. Alþingi hefur skv. spurningunni sem kosið er um algerlega frjálsar hendur.

Það kemur spánskt fyrir sjónir að verk sem rétt er hafið skuli nú lagt fyrir kjósendur án þess að atkvæði þeirra hafi nokkra einustu þýðingu, hvorki lagalega né pólitískt, og veitir löggjafanum litla sem enga vísbendingu um þjóðarvilja. Að greiða atkvæði um þessar misgáfulegu tillögur stjórnlagaráðs er því tímaeyðsla og það sem verra er, sóun á almannafé.




Skoðun

Sjá meira


×