Skoðun

Ekki misskilja spurningarnar

Smári McCarthy skrifar
Kosningarnar 20. október næstkomandi snúast ekki um hvort það eigi að taka upp nýja stjórnarskrá. Það er gengið út frá því að það verði samin ný stjórnarskrá og hún fari í gegnum ferli hjá Alþingi. Eins og staðan er í dag hefur Alþingi eitt vald til að setja nýja stjórnarskrá, en það er gert með því að frumvarp er samþykkt á þingi, því næst er þingi slitið, þingkosningar eru haldnar í kjölfarið og nýtt þing staðfestir fyrra frumvarp óbreytt.

En um hvað er þá kosið 20. október?

Spurningarnar sex fjalla um hvaða eiginleika ný stjórnarskrá mun hafa.

Fyrsta spurningin fjallar um hvort það eigi að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýju stjórnarskránni, eða hvort hún eigi að vera samin frá A til Ö í forsætisnefnd Alþingis. Það að svara nei þýðir ekki að þú viljir ekki nýja stjórnarskrá, enda er ekki verið að spyrja að því, heldur hvort þú viljir frekar flokkspólitíska samsuðu á nýrri stjórnarskrá en stjórnarskrá sem var samin í gegnum einstakt þátttökulýðræðislegt ferli sem rúmlega þúsund manns komu að.

Frumvarp stjórnlagaráðs er fyrir margar sakir stórmerkilegt.

Alls staðar í heiminum veit fólk af því sem gerðist á Íslandi, og fólk talar um það af stakri öfund hversu frábært ferlið var, bæði með þjóðfundinn og stjórnlagaráð, þar sem almenningur fékk beina aðkomu að gerð á nýrri stjórnarskrá. Ef betra ferli er mögulegt er það mannkyninu óþekkt enn. Það er ekki betra að Alþingi krukki í frumvarpinu, enda væri Alþingi þá að taka ákvarðanir um eigin valdmörk.

Það hefur farið óneitanlega í taugarnar á mér hversu margir misskilja þessar kosningar. Sumir, sérstaklega úr röðum Sjálfstæðisflokksins, hafa verið vísvitandi að hvetja fólk til að mæta ekki á kjörstað, eða ef þau mæta, að segja nei við öllu, eða annað álíka. Fyrir mér hljómar þetta mjög barnalega.

Væri ekki réttara að kynna sér málefnin og svara þeim málefnalega?

Spurningar eins og „finnst þér að öll atkvæði eigi að vega jafnt" og „finnst þér að almenningur eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu" eru spurningar sem er alveg þess virði að eyða nokkrum mínútum í að hugsa um.

Ég hef pælt mikið í þessu, eins og sem betur fer margir aðrir, og mitt svar 20. október er ekkert leyndarmál: já, já, nei, já, já, já.

Endilega kynnið ykkur frumvarp stjórnlagaráðs, kynnið ykkur spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni, og mætið svo á kjörstað!




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×