Skoðun

Mannréttindi og mannamál

Lára Magnúsardóttir skrifar
Undanfarna tæpa tvo áratugi hef ég fengist við sagnfræðirannsóknir á hugmyndum, lögum og rétti sem lúta að því hvernig yfirvöld stýra einkalífi almennings. Árið 2007 birti ég stóra rannsókn um bannfæringu í miðaldakirkjunni en í henni lagði ég jafnframt fram aðferðafræði sem ég útbjó til þess að geta túlkað heimildirnar á skipulagðan hátt. Aðferðin lýtur að því að skilgreina hugtök réttarkerfisins nákvæmlega og í samhengi hvert við annað. Rannsóknin sýndi fram á að saman mynda hugtökin kerfi, ekki ólíkt stærðfræðiformúlu að því leyti að ef rangt er farið með eitt hugtak getur útkoman úr dæminu orðið röng, en ef vel er haldið á spöðunum verður útkoman skiljanleg og rökrétt.

Frá árinu 2008 hef ég unnið að því að rekja sögu þessa réttarkerfis eftir miðaldir, en í bannfæringunni liggur grunnur að mörgum vestrænum réttarfarshugmyndum. Réttarkerfi kirkjunnar snerist um sálir mannanna, þ.e. einstaklinga, og sú heimspekilega og lagalega sýn sem í því fólst lagði grunn að því hvernig sambandi einstaklings og yfirvalds er háttað í vestrænum ríkjum. Þess vegna eru forn hugtök og hugmyndir enn undirstaða þjóðskipulagsins, en þar má sem dæmi nefna skilning á hugtökum eins og frjálsum vilja, samvisku, ábyrgð, græðgi og réttlæti.

Undanfarin tvö ár hef ég einbeitt mér að því að prófa ofangreinda greiningaraðferð á málefnum sem hátt fara í samtímanum og þegar frumvarp til stjórnlaga var lagt fram ákvað ég að kanna II. kafla frumvarpsins sem ber heitið „Mannréttindi og náttúra“ sem, samkvæmt þeirri hugtakagreiningu sem ég beiti, virtist ekki passa inn í „kerfið“. Ástæðan er sú að „mannréttindi“ er yfirþjóðlegt hugtak sem segir fyrir um samband mannsins við yfirvöld og hefur „manninn“ að eiginlegu viðfangsefni. Skilgreining mannréttindahugtaksins liggur í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og undirliggjandi er skilgreining á „manninum“. Mannréttindahugtakið er þar af leiðandi fyrir fram bundið og því hlýtur að orka tvímælis ef Íslendingar kjósa að fjalla um annað en mannréttindi í stjórnarskrárkafla um það efni.

Ekki fer milli mála að í frumvarpinu er náttúrunni ætlaður „réttur“ vegna þess að í 33. gr. II. kafla segir: „Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.“ Allt samhengi bendir til þess að sá réttur sem um ræðir sé „mannréttindi“. Vegna þess að mannréttindahugtakið er samansett úr mörgum hugtökum, sem hvert um sig byggist á aldagamalli hefð og samhengi, gætu afleiðingar þess að stinga ómannlegu fyrirbæri inn í mannréttindaskilgreininguna orðið víðtækar, í versta falli að í framhaldinu yrðu að gilda öll þau lögmál sem maðurinn er talinn lúta í allri umræðu, sem og í lagasetningu og stjórnvaldsathöfnum tengdum náttúru.

Vegna þess að um náttúruna er fjallað í mannréttindakaflanum vakti sérstaka athygli mína orðið „virða“ í fyrstu málsgrein 33. gr.: „Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.“ Vegna samhengis er varla hægt að skilja það öðruvísi en sem það hugtak sem í ensku útgáfu Mannréttindayfirlýsingarinnar er „dignity“ og er eitt af undirstöðuhugtökum sáttmálans og stendur að nokkru leyti jafnfætis hugtakinu „rétti“. Ef til vill má taka sem dæmi um muninn á hugtökum að kosningaréttur skyldar yfirvöld að tryggja öllum aðgengi að kjörstað og frelsi til að kjósa samkvæmt eigin samvisku, en „dignity“ á að tryggja að hver og einn geti gengið til kosninga á þann hátt sem talið er sæma manni – með öllu sem því fylgir.

Þegar ég bar saman beitingu hugtaksins „dignity“ í enska og franska texta Mannréttindayfirlýsingarinnar kom í ljós fullkomið samræmi í hugtakanotkun. Í dönsku þýðingunni sömuleiðis, en þar er hugtakið þýtt sem „værdighed“. Á íslensku er hugtakið hins vegar ýmist þýtt sem „virðing“, „göfgi“ eða „mannsæmandi“.

Frekari athugun leiddi í ljós að þýðing Mannréttindasáttmálans á heimasíðu Mannréttindaskrifstofu er byggð á annarri íslenskri þýðingu sem hægt er að finna á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna. Engar upplýsingar er að finna um hver stóð fyrir breytingum á þýðingunni, hvenær eða hvers vegna. Raunar heldur ekki hver ber ábyrgð á þýðingunum yfirleitt. Munurinn á þýðingunum tveimur er talsverður og þótt ég hafi ekki gert samanburð á öðrum þáttum en þeim sem tengjast hugtakinu „dignity“ varð ljóst að fleiri hugtökum hefur verið breytt og hugtök hafa verið færð til.

Af þessu dreg ég þá ályktun að „dignity“ er ekki meðhöndlað sem hugtak í íslenskum þýðingum og hef fundið vísbendingar um að fleiri hugtök sem skilgreina mannréttindi séu á reiki. Það þýði að Íslendingar hafi ekki aðgang að bestu mögulegum tækjum til að fjalla um mannréttindamál sem hafi meðal annars þær afleiðingar að í stjórnlagaráðsfrumvarpinu sé varhugaverð ónákvæmni. Ef til vill má segja að íslenskur texti Mannréttindayfirlýsingarinnar sé á „mannamáli“ að því leyti að ekki er fylgt ýtrustu nákvæmni í hugtakanotkun, sem hlýtur að leiða hugann að væntingum um stjórnarskrá á mannamáli og langvarandi afleiðingum sem gætu hlotist af því.

Í frumvarpinu kemur „göfgi“ ekki fyrir en „mannsæmandi“ er notað. Í 8. grein frumvarpsins er kveðið á um að öllum skuli „tryggður réttur til að lifa með reisn“ og má ætla að „reisn“ sé enn önnur tilraun til að íslenska hugtakið „dignity“. Ýmis önnur ónákvæmni kom í ljós við skoðun sem ekki er hægt að ræða nánar hér. Hins vegar fer ekki milli mála að hver stjórnarskrárgrein fyrir sig væri sterkari og tryggði betur rétt manna ef hugtökin vísuðu hvert í annað og væru rekjanleg til Mannréttindayfirlýsingarinnar.

Ef spurt er um markmið þess að veita náttúru réttindi með stjórnarskrárákvæði virðist líklegt að stjórnlagaráð hafi viljað takast á við alþjóðlegan vanda sem varðar ásókn í náttúruauðlindir af hendi fyrirtækja sem oft eru stærri en ríki og ógna í raun lýðræði í heiminum í vaxandi mæli. Ólíklegt er að ákvæði frumvarpsins nái fram lausn á því máli en aðrar afleiðingar þess eru ófyrirséðar. Að mínu mati færi betur á því að markmið breytinga á stjórnarskrá væru skilgreind nákvæmlega eftir að fram væri komin skýr greining á fyrirliggjandi vanda. Að því loknu þarf að beita bestu áhöldum til að ná markmiðunum fram, en það verður helst í alþjóðlegu samstarfi.

Fræðileg rannsókn er tímafrek og eins tekur langan tíma að birta niðurstöður í ritrýndum vísindatímaritum. Ekki vinnst tími til að birta niðurstöður rannsóknar minnar á hugtökum í frumvarpi stjórnlagaráðs fyrr en í fyrsta lagi á vormánuðum en vegna þess að umræðu er þörf einmitt núna hef ég ákveðið að birta greinina sem uppkast á heimasíðu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra http://stofnanir.hi.is/skagastrond/. Föstudaginn 5. nóvember flyt ég fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni um efnið og er hvort tveggja undir heitinu: „Náttúran í eigin rétti. Stjórnarskrá á mannamáli“.




Skoðun

Sjá meira


×