Innlent

Dýrt að skulda skatt

Markmiðið er að innheimta sem mest af kröfum, ekki að selja ofan af fólki eða fyrirtækjum. Fréttablaðið/pjetur
Markmiðið er að innheimta sem mest af kröfum, ekki að selja ofan af fólki eða fyrirtækjum. Fréttablaðið/pjetur
Það er alltaf dýrt að vera í vanskilum, segir tollstjóri, sem ráðleggur engum að gera samkomulag um greiðsluáætlun við embættið ef hann getur á annað borð staðið skil á skattgreiðslum – sérstaklega vörslusköttum.

Fréttablaðið sagði frá því í síðustu viku að DV hefði í sumar skuldað 76 milljónir í vörsluskatta en hefði gert samkomulag við tollstjóra um greiðsluáætlun fram undir áramót. Þetta hefur vakið upp spurningar um það hvernig farið sé með þessi mál hjá tollstjóra og hvort allir skuldarar njóti þar jafnræðis.

Snorri Olsen tollstjóri segir greiðsluáætlanirnar fyrst og fremst hafa þau áhrif að fresta fjárnámi. Það eina sem vaki hins vegar fyrir embættinu sé að fá kröfu sína greidda að eins miklu leyti og unnt er. „Okkar markmið er ekki að selja eignir eða að vörslusvipta bíla. Ef viðkomandi sýnir greiðsluvilja og krafan lækkar þá erum við þokkalega róleg á meðan,“ segir hann.

Greiðsluáætlun hjálpar einnig tollstjóraembættinu að því leyti að með því rofnar fresturinn fram að fyrningu kröfunnar. „Þar með er skuldarinn að viðurkenna kröfuna og við þurfum ekki að fara í aðgerðir til að rjúfa fyrningu.“

Þetta úrræði stendur öllum jafnt til boða að sögn Snorra og yfir sex þúsund einstaklingar og fyrirtæki nýta sér það á ári. Greiðsluáætlun af þessu tagi standa aðeins til boða í sex mánuði í senn og að þeim tíma loknum taka við nýjar viðræður um framhald.

„Yfirleitt þarftu að borga mánaðarlega þannig að það líður ekki mjög langur tími þangað til það kemur í ljós hvort þú getur staðið við þetta,“ segir Snorri. Þá komi aftur til skoðunar að gera fjárnám hjá viðkomandi, hvort sem það yrði árangurslaust eða bæri árangur.

Lengi vel voru ekki gerðar greiðsluáætlanir fyrir vörsluskattaskuldir á borð við þær sem hvíla á DV nema til örfárra mánaða í senn. Í kjölfar hrunsins voru teknar upp aðrar vinnureglur og hætt að setja fyrirtæki á svokallaðan lokunarlista, sem getur leitt til tímabundinnar vinnustöðvunar.

Áður fóru mörg hundruð fyrirtæki á slíkan lista árlega, þótt sárafáum væri á endanum lokað, en árin 2009 til 2011 var ekki eitt einasta sett á listann. „Við erum farin að herða þessa innheimtu aftur,“ segir Snorri.

Hann bendir á að það sé mjög dýrt að trassa að skila vörslusköttum, jafnvel þótt gerð sé greiðsluáætlun. Þá leggist á dráttarvextir og tíu prósenta álag að auki fyrstu tíu dagana. „Svo að sá sem getur borgað er alltaf betur settur,“ segir Snorri Olsen tollstjóri.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×