Skoðun

Hvers virði er þekking, færni og fagmennska í heilbrigðisþjónustunni?

Herdís Gunnarsdóttir skrifar
Ísland er nú meðal þeirra landa innan OECD þar sem útgjöld til heilbrigðismála drógust mest saman árið 2010. Við okkur blasir að frá 2007 hefur verið rík hagræðingarkrafa á heilbrigðistofnanir í landinu sem hefur skilað sér í um 20-25% niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Aðhald og sparnaðarkrafa síðustu ára hefur nú leitt til þess að rekstur heilbrigðistofnana er kominn að þolmörkum enda hefur víðast verið dregið verulega úr þjónustu án þess að vinna markvisst að bættu skipulagi, samvinnu og samhæfingu í þjónustu við sjúklinga milli stofnana.

Hjúkrunarfræðingar hafa átt ríkan þátt í því að auka framlegð í heilbrigðiskerfinu síðustu árin. Hins vegar hafa hjúkrunarfræðingar ekki notið góðs af því í launakjörum. Þeir hafa skilað þjóðhagslegum ávinningi í að hjúkra fleirum til heilsu fyrir færri ársverk. Ef það er borið saman við árangur og umbun skilanefnda bankanna má spyrja hvar gildi samfélags okkar liggja.

Staðreyndin er sú að laun hjúkrunarfræðinga hafa síðustu ár dregist aftur úr launum annarra háskólamenntaðra stétta sem starfa hjá hinu opinbera. Meðaldagvinnulaun almennra hjúkrunarfræðinga voru samkvæmt kjarakönnun FíH árið 2011 kr. 356.572. Af þessum launum er sú upphæð sem eftir er til ráðstöfunar að frádregnum sköttum og gjöldum langt undir framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar tekið er tillit til fastra og breytilegra kostnaðarliða við heimilisrekstur. Laun hjúkrunarfræðinga eru allt of lág miðað við 4 til 6 ára háskólanám. Hjúkrunarfræðingar eru eftirsótt vinnuafl og búa yfir þekkingu sem er ómissandi fyrir heilbrigðiskerfið. Vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga er alþjóðlegur og því eðlilegt að hjúkrunarfræðingar leiti í störf þar sem framboð er af vel launuðum störfum fyrir sérhæfða þekkingu þeirra. Nýlega sóttu um 150 hjúkrunarfræðingar kynningarfund til að afla sér upplýsinga um störf í Noregi. Launamál og stofnanasamningar hjúkrunarfræðinga eru nú víða í uppnámi enda atgervisflótti úr stéttinni mögulega í uppsiglingu.

Ljóst er að forgangsverkefnin í heilbrigðisþjónustunni fram undan snúast um aukna samhæfingu og bætt skipulag. Áherslan verður áfram lögð á að nýta þá fjármuni sem veitt er í heilbrigðiskerfið þannig að þjónustan verði skilvirk, örugg, rétt tímasett og sjúklingamiðuð með sem minnstum tilkostnaði fyrir samfélagið, sjúklinga og aðstandendur þeirra. Þessu er að mörgu leyti ábótavant vegna skorts á samvinnu heilbrigðisstétta, samþættingu þjónustu og ófullkominnar rafrænnar sjúkraskrár. Hjúkrunarfræðingar hafa lýst sig reiðubúna að vinna að lausn þessara verkefna. Samþætting þjónustu og samvinna heilbrigðisstétta á að vera algjört forgangsatriði nú til að veita sjúklingum rétta þjónustu á réttum stað, draga úr tvíverknaði og skila þjóðhagslegum ávinningi og betri nýtingu á almannafé.

Hjúkrunarfræðingar hafa í áratugi gegnt aðalhlutverki í samhæfingu umönnunar sjúklinga með því að skipuleggja og veita hjúkrun á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslustöðvum og víðar. Hjúkrunarfræðingar sinna forvörnum ásamt því að hafa faglega færni til að sinna eftirfylgni, mati og meðhöndlun einkenna langveikra sjúklinga. Með tilfærslu verkefna innan heilbrigðiskerfisins er hægt að ná enn meiri árangri í að veita samfellda og fjölskyldumiðaða meðferð. Því er miður að skorið skuli vera niður fé til rekstrar á hjúkrunarstýrðum göngudeildum og forvarnarverkefna sem skila árangri þegar til lengri tíma er litið. Sérhæfðar göngudeildir á sjúkrahúsum og þjónusta í heilsugæslu sem skipulögð er út frá þörfum sjúklingahópa, s.s. aldraðra, barna, geðsjúkra og langveikra eru verkefni sem hjúkrunarfæðingar eiga að taka að sér í ríkara mæli. Því miður eru auðlindir og þekking vannýtt á þessu sviði. Núverandi þjónusta fyrir sjúklingahópa er oft á tíðum dreifð og samfellu skortir í samskiptum fagaðila. Sérfræðingar í hjúkrun hafa menntun og færni til að taka að sér enn stærri verkefni í að stýra þjónustu við sjúklingahópa á Íslandi hvort sem um er að ræða grunnþjónustu eða sérhæfða þjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að árangurinn af slíkum verkefnum er aukin gæði þjónustu, lægri kostnaður og bætt aðgengi sjúklinga að þjónustu.

Því er ekki að undra að hjúkrunarfræðingar krefjist jafnréttis í grunnlaunum samanborið við aðrar fagmenntaðar háskólastéttir og bjóði um leið fram lausnir og beina aðkomu að stjórn og samhæfingu heilbrigðismála.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×