Skoðun

Byssa og stígvél

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
Ég er bara 8 ára og stend í grænmetisdeildinni í Hagkaup með glænýja vatnsbyssu í hendinni þegar jafnaldra mín vindur sér að mér eins og sjálfskipaður friðargæsluliði og segir: „Átt þú þessa byssu?“ „Já,“ svara ég hróðug. „Asnaleg byssa.“ Að þeim orðum sögðum er hún horfin á braut. Ég er ósátt, geng hröðum skrefum gegnum búðina í leit að bráðinni, sé hvar hún stendur við hraðkassann ásamt móður sinni og meðan reiðin blæs í seglin, kem ég auga á höggstaðinn. „Átt þú þessi stígvél?“ spyr ég og bendi valdsmannslega með byssunni í átt að rósbleikum stígvélum stúlkunnar. „Já,“ svarar hún og röddin er lítil og skræk. „Asnaleg stígvél,“ svara ég, hringa byssuna niður í beltið og geng sigri hrósandi burt, í leit að mömmu.

Manneskjan býr yfir vissum stríðsþorsta, við erum t.a.m. einu lífverur heimsins, sem geta mundað vopn, innra með okkur bærist þráin eftir því að hafa völd og eiga síðasta orðið en sú þrá tekst líka á við óskina um öryggi og frið. Þessi litla saga úr æsku minni er bara kómísk birtingarmynd miklu stærri og erfiðari veruleika. Hún opinberar kannski heimskuna eina og sér.

Ísland býr yfir mestu og bestu auðlind heimsins sem er friður. Vissulega geisar víða stríð í persónulegu lífi fólks en sem samfélag njótum við friðar. Um leið og við tökum við upplýsingum og fréttamyndum af bræðrum okkar og systrum á Sýrlandi, og víðar sem lifa nú hreint helvíti, veltum við því fyrir okkur hvar heppilegast sé að virkja næst og byggja stóriðju. Samt er ekkert sem minnir okkur meira á þann frið sem allir þrá en náttúra þessa lands.

Náttúra Íslands er opinberun þess sem verður þegar lífið fær að dafna í friði. Ábyrgð okkar sem samfélags er að standa vörð um stærstu auðlind okkar og leyfa henni að fóstra fjöregg lífsins. Verum friðarþjóð.




Skoðun

Sjá meira


×