Skoðun

Vilji til breytinga

Guðrún Nordal skrifar
Á síðasta vori lögðu starfsnefndir Vísinda- og tækniráðs fram viðamiklar tillögur um breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu, sem byggðar voru á ítarlegri skýrslu um kerfið allt (sjá www.vt.is). Í skýrslunni var í fyrsta sinn dregin upp mynd af öllum hliðum vísinda- og nýsköpunarkerfisins og þeirri fjölbreyttu löggjöf sem það byggir á.

Fjárveitingar til stofnana, háskóla og sjóða hafa rýrnað um 5 milljarða frá 2008, en skv. fjárlögum 2012 er 17 milljörðum nú varið til þessara aðila. Á sama tíma hefur atvinnulífið veikst mjög. Við lifum auðvitað óvenjulega tíma og óumflýjanlegan niðurskurð, en þessi mikla blóðtaka hefur því miður ekki leitt til skipulagsbreytinga eða nýrrar hugsunar í kerfinu. Margs konar úttektir, innlendar jafnt sem erlendar – sjálfstæðar greiningar, sem og reglubundnar úttektir OECD – hafa ítrekað hversu brotakennt allt kerfið er og hversu fé er dreift víða. Svo mjög að fjárveitingar til háskóla eru komnar langt niður fyrir viðmiðunarmörk OECD.

Það þarf því að huga vel að því hvernig byggt verður upp á nýjan leik, og þörf er á yfirvegaðri og opinni umræðu hvernig við teljum best að skipuleggja vísinda- og nýsköpunarstarf í landinu. Einnig er nauðsynlegt að efla skilning fjárfesta og opinberra aðila á að langtímarannsóknir og þróunarstarf í fyrirtækjum taka tíma, en uppskeran er ríkuleg ef vel er staðið að verki. Opinberar fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar hafa verið í mjög föstum skorðum um árabil: 84% opinberra fjárveitinga eru nú bundin í framlögum til stofnana og háskóla en aðeins 16% er veitt í samkeppni, og hafa þessi hlutföll lítið breyst á undanförnum árum. Er hlutfall samkeppnisfjár miklu lægra hér á landi en í nágrannalöndunum, og því hefur stundum reynst erfitt fyrir nýjar greinar og nýja aðila að koma undir sig fótunum.

Það hefur lengi verið stefna Vísinda- og tækniráðs að hærra hlutfall opinberra framlaga til rannsókna sé úthlutað í samkeppni en gert er nú. Fyrir hrun var sett fram áætlun til 2011 um stækkun opinberu samkeppnissjóðanna, en vitaskuld varð frá henni að hverfa og hafa sjóðirnir minnkað á síðustu árum. Nú er svo komið að úthlutunarhlutfall úr Rannsóknasjóði nær varla 15 prósentum, svo að sjóðurinn getur á engan hátt stutt við gróskumikið vísindastarf í landinu.

Það er því gleðiefni að í hinu nýja fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 birtist sú stefna að treysta beri á samkeppni í ríkara mæli til að dreifa viðbótarfé og leggja þar með enn meiri áherslu á stóru samkeppnissjóðina, Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð og Markáætlun. Það er heilbrigðismerki að treyst sé á samkeppnissjóði til að úthluta til verðugustu rannsóknarverkefnanna eins og gert er í öllum nágrannalöndum okkar, og þar hafa samkeppnissjóðir reynst skilvirkt tæki til að dreifa rannsóknarfé innan opinbera kerfisins.

Ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga munu fjárveitingar til Rannsóknasjóðs hækka um 70% á næsta ári. Rannsóknasjóður er mjög vel í stakk búinn til að takast á við þær áskoranir sem felast í því umtalsverða trausti sem í þessari hækkun felst. Stjórn sjóðsins, í góðu samstarfi við Rannís og í sátt við vísindasamfélagið, hefur gert róttækar breytingar á umsýslu sjóðsins á síðustu árum og eflt gagnsæi mjög. Íslenskt vísindasamfélag er fámennt og því er návígi vísindamanna mikið. Umsóknir eru nú skrifaðar á ensku, og því er mögulegt að senda þær allar í mat erlendis. Auk þess tók vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs þá mikilvægu ákvörðun að í hverju fagráði skyldu sitja að jafnaði tveir erlendir fagráðsmenn.

Ef stækkun sjóðanna verður að veruleika á næstu árum mun sveigjanleiki í vísindastarfi hér á landi aukast verulega og möguleikar ungs vísindafólks eflast, sem margt hefur orðið hart úti í niðurskurði síðustu ára. Sú fjárfesting mun ekki aðeins skila sér í nýrri þekkingu og verðmætasköpun í atvinnulífi – heldur ekki síður í mannvænlegra samfélagi.

Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að skera þarf enn niður í háskólum og stofnunum á næsta ári, því að komið er að þolmörkum, en hins vegar ber að fagna því sem skynsamlega er gert. Og því ber að fagna nýrri hugsun og þeim skýra vilja til breytinga sem kemur fram í nýju fjárlagafrumvarpi.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×