Skoðun

Bless Ísland?

Helga Brekkan skrifar
Á forsíðu Helgarblaðs Fréttablaðsins þann 8. september var þessi fyrirsögn: ?Ræsa álver í Helguvík 2015?. Í textanum er vitnað í Michael Bless, forstjóra Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls:

?Segir hann að samningar um orku fyrir álver í Helguvík séu á lokametrunum.?

Undirbúningi fyrir mengandi stóriðju í náttúru Reykjanesskaga er í forsíðufrétt lýst sem kapphlaupi.

Fréttablaðið birtir jú oft hressilegar fyrirsagnir af ál- og virkjanakapphlaupi karla sem keppast við að rústa náttúru landsins. Blaðið birtir og áhorfendatölur túristanna. Sex hundruð þúsund erlendir ferðamenn sem koma til þess að njóta óspilltrar náttúru. (Best að moka inn túristunum hratt áður en stríðið gegn landinu fer að fæla þá frá.)

Í viðtalinu talar álverjinn Bless líka íþróttatungumál. Hann segir: ?Það er orðtak úr bandaríska fótboltanum sem segir að erfitt sé að komast að tveggja jarda línunni, en það hafist.

Síðustu tveir jardarnir séu erfiðastir. Við erum á síðustu tveim jördunum með að vinna úr smáatriðum, en höfum náð saman um aðalatriðin.?

Halló, herra Bless, jarda hvað?

Ég skil ekki amerískt íþróttamál en skynja alvöruna.

Að hér er verið að dæma náttúruperlur Reykjanesskaga úr leik.

Ekki er langt síðan okkur voru sagðar fréttir um að sum náttúrudjásn Íslands væru ekki lengur á dauðalista heldur hafi færst yfir á ?bið?.

Er íslensk náttúra öll á dauðalista en bara mismunandi mikið í bið? Landeigendur sitja með öndina í hálsinum vegna hugsanlegs eignarnáms jarða þeirra. Af því að hugmyndasnauðar frekjur þora ekki að hugsa lengra en inn í álver. Eru þjóðir dæmdar til að endurtaka mistök ef þær kjósa að læra ekkert af þeim fyrri? Kýs meirihluti þjóðarinnar nú að gleyma Kárahnjúkavirkjun og forsögu hennar?

Að gleyma lágu og leynilegu raforkuverði? Að gleyma að svokallaður umhverfisráðherra veitti undanþágu fyrir náttúruspjöllunum? Að gleyma fórnun fossa og ósnortinna svæða sem fáir höfðu séð? Nema í merkum bókum Guðmundar Páls Ólafsson og sjónvarpsþáttum Ómars Ragnarssonar.

Viljum við gleyma hverjir eiga fjölmiðlana sem segja okkur ?fréttirnar?? Gleyma því að fyrrverandi Herra allt mögulegt og nú ritstjóri tók þátt í þessum náttúruspjöllum? Gleyma fyrrverandi iðnaðarráðherra og framsóknarformanni á kaupi í Höfn? Kjósa menn að gleyma og kjósa því aftur sama fólkið? Mennina sem seldu land fyrir slikk og sökktu Þingvöllum og Þórsmörkum komandi kynslóða fyrir völd og vel (inn) múruð ævikvöld?

Í skóla lærðum við um jarðabókarskrif og handritasöfnun Árna Magnússonar. Okkur var kennt að hann hefði unnið mikilvægt björgunarstarf með því að kaupa handrit af Íslendingum sem þeir skemmdu sjálfir eða létu rotna í rúmbotnum. Við lærðum líka að Jónas Hallgrímsson fann fegurð í fjöllum og orðum og fléttaði sögu lands og þjóðar inn í framtíðina. Kannski lærði einhver líka að á náttúrugripasafninu í Kaupmannahöfn vitna steinar hans um jarðfræðimál Íslands.

Hinn nýlátni rithöfundur, náttúrufræðingur, ljósmyndari og listamaður Guðmundur Páll Ólafsson kenndi okkur margt um landið sem við lærðum ekki í skóla. Barnabækur hans um fugla hafs og lands og öll stórverk hans um náttúru Íslands bera þekkingu, ást og umhyggju hans fyrir landinu vitni. Árni, Jónas og Guðmundur Páll Ólafsson eru nokkrir af merkum Íslendingum sem skipta okkur máli. Sem hafa varðveitt og lyft fram því sem við eigum. Bent á fegurðina í menningu okkar og náttúru.

Nýlega heyrði ég á RÚV útvarpsþáttinn Liðast um landið. Þar tekur tvítug stúlka úr Reykjavík Svavar Jónatansson þáttargerðarmann upp í bíl sinn á leið í austur frá Kvískerjum.

Hún er fljót að segja að hún þekki ekki landið. Telur upp þessi nöfn: Þingvellir, Þingvatn, Skallagrímsgarður, Arnarhóll.

?Ég veit ekki neitt um Ísland,? segir Anna Lóa Bárðardóttir meðan hún dáist að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi.

Hún segist ekki hafa haft hugmynd um að það væri til. ?Geðveikt flott,? segir unga einstæða móðirin sem vinnur á bensínstöð í Reykjavík. Borgarbarn sem er að upplifa náttúrufegurð í fyrsta sinn.

Í næsta stoppi segir Svavar við Önnu Lóu gegnum sumarkvöldskyrrðina:

Segðu mér nú hvað þú sérð í kringum þig.

Það er vatn,

og tún,

og fjall,

og kindur,

og gul blóm,

og sveitabær,

og pínulítill foss

eða á eða eitthvað?

foss, jú já, það er það eina.

Og þoka, eða smá ský, smáþoka.

Og klettar í fjöllunum

og endalaus vegur.

Það var fallegt að heyra Önnu Lóu tala um son sinn og lýsa því sem fyrir augu hennar bar á leiðinni.

Jafnvel þótt margir virðist fara á mis við náttúrufræðslu í skóla eða heima þá er aldrei of seint að læra um landið, fjöll þess og fuglanöfn.

En það getur orðið of seint að upplifa fegurðina ef hún er skemmd og farin. Okkur var falið að gæta náttúrunnar fyrir komandi kynslóðir. Segjum því bless við álver, Kínver og glórulausa græðgi.

Leggjum niður keppni í virkjunum og veitum ljóðrænu yfir akra hugans.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×