Skoðun

Laun forstjóra Landspítala – og áhrifarík stjórnun í heilbrigðisþjónustunni

Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson skrifar
Viðbrögð við 450 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum forstjóra Landspítalans hafa verið hörð og stór orð notuð til að lýsa áliti einstaklinga, fag- og stéttarfélaga á þessum gerningi. Þessi viðbrögð eru skiljanleg þegar horft er til ástandsins í samfélaginu í kjölfar hrunsins og þeirra sársaukafullu niðurskurðaraðgerða sem grípa þurfti til á Landspítala.

Skoðum þetta aðeins nánar. Rekstrarkostnaður Landspítala var 35-38 milljarðar á ári fyrir hrun. Á hverju ári voru fréttir af framúrkeyrslu í rekstri spítalans, sem nam milljörðum króna. Á tímabilinu 2004 til 2008 fóru gjöld vegna reksturs Landspítalans úr 27 milljörðum króna á ári í 39 milljarða króna.

Rekstrarkostnaður spítalans jókst sem sé um 12 milljarða króna á ári á tímabilinu. Á þessum útgjöldum hefur orðið gífurleg breyting eftir hrun. Reksturinn hefur verið skorinn niður um fjórðung eða sem nemur um 9 milljörðum króna á ári, gróft reiknað. Á yfirstandandi ári verður áfram skorið niður í rekstri spítalans og er áætlað að niðurskurður verði rúmar 600 milljónir króna. Niðurskurður í starfsemi Landspítala hefur verið sársaukafullur en nauðsynlegur og verður sjálfsagt notaður til að mæta 40 milljarða króna framreiknuðum halla á ríkissjóði þetta árið. Flestir eru þó sammála um að nú sé nóg komið.

Þegar laun forstjórans eru skoðuð í þessu ljósi blasir við sú staðreynd að 450 þúsund króna aukning á mánaðarlaunum, eða samtals 5,4 milljónir á ári eru sem dropi í hafið. Mín vegna má líta á þessa launahækkun sem verðskuldaða viðurkenningu á góðum árangri hans við stjórnun spítalans á mjög erfiðum tímum. Það eitt að ná böndum utan um rekstur spítalans er mikið afrek sem ber að viðurkenna og verðlauna.

Hugsað lengraMikilvægi áhrifaríkrar stjórnunar í heilbrigðiskerfinu verður ekki að fullu metið nema horft sé á hana í samhengi við þróun heilbrigðismála á næstu árum og áratugum. Heilbrigðiskerfi nútímans eru dýr. Þau eru rándýr. Alþjóðbankinn áætlar að íslenskt heilbrigðiskerfi kosti tæplega 10% af þjóðarframleiðslu Íslendinga eða 150-160 milljarða króna á ári. Inni í þessum kostnaði eru allar greiðslur frá opinberum aðilum, einstaklingum og fyrirtækjum vegna heilbrigðisþjónustu. M.ö.o. þá kostar íslenskt heilbrigðiskerfi tæplega fimm hundruð þúsund krónur á hvern Íslending á ári.

Þessi kostnaður mun aukast til muna á næstu árum. Skýringuna er að finna í heimsfaraldri langvinnra eða ósmitnæmra sjúkdóma sem tengjast m.a. nútímalífsstíl og vaxandi aldri. Fara þar fremstir hjarta og æðasjúkdómar, geðrænir sjúkdómar og kvillar, krabbamein, langvinnir lungnasjúkdómar og offita/sykursýki. Það hefur verið áætlað að 60% af ótímabærum dauðsföllum, það eru dauðsföll sem koma má í veg fyrir með tímabærum forvörnum og meðferð, séu af völdum langvinnra sjúkdóma. Auk þessa eru langvinnir sjúkdómar einstaklingum þung byrði vegna vanheilsu og fötlunar sem þeim fylgja.

Kostnaður samfélagsins hefur verið metinn til fjár og þær tölur eru ógnvekjandi þar sem einstaklingar með langvinna sjúkdóma þurfa skipulagða eftirfylgni, flóknar lyfjagjafir auk ýmiss konar inngripa. Efnahagslegar afleiðingar fyrir samfélög eru því miklar og ætla má að um eða yfir 80% af kostnaði við heilbrigðiskerfið í dag séu vegna langvinnra sjúkdóma. Þetta er um 120 milljarðar króna á ári á Íslandi (eða fjórfaldur árlegur rekstrarkostnaður Landspítala).

Samkvæmt spá Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar mun kostnaður vegna langvinnra sjúkdóma margfaldast fram til ársins 2030 við óbreyttar kringumstæður. Í raun þýðir þetta að langvinnir sjúkdómar eru nú bein ógn við efnahagslega afkomu samfélaga heimsins. Verði ekki brugðist við með áhrifaríkum hætti er hætta á að kostnaður vegna þeirra muni sliga efnahagskerfi margra þjóða. Áhrifaríkar aðgerðir til að stemma stigu við langvinnum sjúkdómum tengjast m.a. eflingu forvarna, tímanlegri greiningu og skipulagi eftirfylgdar þeirra sem eru í áhættu eða hafa frumstig sjúkdómanna.

Með þetta að leiðarljósi er víða erlendis í gangi „endurhönnun“ eða endurskipulagning á heilbrigðisþjónustunni. Eðli síns vegna og af hagkvæmnisástæðum er heilsugæslan í þungamiðju þessara breytinga. Vægi hennar verður aukið með breyttri hlutverkaskipan starfsfólks, eflingu teymisvinnu og stöðlun vinnubragða. Aukin aðkoma notenda þjónustunnar við mótun hennar er mikilvægur þáttur þessara breytinga samhliða samþættingu þjónustustiga og innleiðingu árangursmælinga með endurgjöf til starfsmanna og notenda. Sameiginlega skapar þetta forsendur aukinnar hagkvæmni og árangurs í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar. Á það jafnt við um einstaklingsheilsu sem og heilsu einstakra hópa samfélagsins. Nýjar áherslur sem þessar munu gera heilbrigðisþjónustunni kleift að mæta nýjum og sífellt flóknari áskorunum, s.s. ógninni sem stafar af faraldri langvinnra sjúkdóma.

Til þess að þetta megi verða þarf öfluga stjórnendur í heilbrigðisþjónustunni. Læknar, með sinn faglega bakgrunn, sem hafa menntun á sviði stjórnunar ásamt nauðsynlegum hæfileikum eru óvenju verðmætur starfskraftur. Mikilvægi þeirra mun aukast á komandi árum þar sem stjórnmálamenn og aðrir stefnumótendur eru víða byrjaðir að skynja áhættuna á að halda í óbreytt kerfi og þörfina á að breyta því til samræmis við nýjar og krefjandi þarfir. Sífellt meiri eftirspurn mun verða eftir læknum með menntun, reynslu og hæfileika á sviði stjórnunar. Mikilvægi þess að hafa slíkt fólk innanborðs verður seint ofmetið.

Læknar eru upp til hópa alþjóðlegur vinnukraftur og störf þeirra þekkja ekki landamæri eins og dæmin sanna. Ég er því ekki hissa á að ákveðið var að halda í forstjóra Landspítala, sem einnig er læknir og einn af lykilstjórnendum heilbrigðiskerfisins.




Skoðun

Sjá meira


×