Viðskiptamódel íslensku viðskiptabankanna er í grunninn það sama og það var fyrir hrun, að því undanskildu að þeir eru með óverulega starfsemi erlendis. Þeir voru, og eru enn, í senn viðskiptabankar og fjárfestingabankar. Það má því gera ráð fyrir að hegðun þeirra muni ekki breytast mikið.
Viðskiptabankar geta náð fram ágætri arðsemi án þess að stunda fjárfestingabankastarfsemi. Spurningin hlýtur því að vera hver sé kostnaður/áhætta almennings annars vegar og hver séu áhrif þess á fjármálamarkaðinn hins vegar að þeir stundi fjárfestingabankastarfsemi samhliða viðskiptabankastarfsemi.
FreistnivandiFjölmörg vandamál koma upp þegar fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun og eigin viðskipti eru á hendi viðskiptabanka tengd freistnivanda og armslengdarsjónarmiðum.
- Er eðlilegt að sá sem lánar og sá sem veitir ráðgjöf sé einn og sami aðilinn? Hver gætir hagsmuna viðskiptavinarins við þær aðstæður?
- Er líklegt að starfsmenn miðlunar og fyrirtækjaráðgjafar bankanna ráðleggi viðskiptavinum sínum að sækja fjármögnun annað?
- Er ekki enn sama hætta til staðar, og fyrir hrun, að skammtímasjónarmið séu látin ráða við lánveitingar, svo sem til að bæta ársfjórðungsuppgjör bankans?
- Er ekki enn sama hætta til staðar, og fyrir hrun, að starfsmenn miðlunar og fyrirtækjaráðgjafar bankans beiti óeðlilegum þrýstingi innan bankans til að fá fyrirgreiðslu samþykkta?
Viðskiptabankar, í skjóli ódýrrar ríkistryggðrar fjármögnunar, stunda í dag áhættusamar lánveitingar og stöðutökur til að styðja við fjárfestingabankastarfsemi sína í samkeppni við sérhæfð fjármálafyrirtæki. Þetta hefur margvísleg neikvæð áhrif á gagnsæi á íslenskum fjármálamarkaði. Svara þarf eftirfarandi spurningum:
- Leiðir þetta fyrirkomulag til réttrar verðlagningaráhættu í kerfinu? Mun það leiða til uppbyggingar á heilbrigðum og skilvirkum fjármálamarkaði?
- Er áhyggjuefni að ekki sé virkur markaður með fyrirtækjaskuldabréf á Íslandi í dag?
- Ef ekkert er að gert munu fjárfestingabankar þá ekki finna sig knúna til að sækja um viðskiptabankaleyfi, rétt eins og Straumur og MP Banki gerðu fyrir hrun?
- Stuðlar eignarhald bankanna á fyrirtækjum á samkeppnismarkaði að heilbrigðu atvinnulífi?
- Er eðlilegt að viðskiptabankarnir nýti ríkistryggð innlán almennings til að fjármagna eða fjárfesta í hlutabréfum?
Má réttlæta sér íslenska löggjöf?Aðstæður annars staðar í heiminum um þessar mundir eru allt aðrar en hér og mjög viðkvæmar.
Fjármálastofnanir í Evrópu glíma við margvíslega erfiðleika og eru illa fjármagnaðar sem gerir þeim ókleift að gangast undir miklar breytingar. Eins eru miklir hagsmunir að veði, t.a.m. er fjármálageirinn í Bretlandi mjög mikilvægur þáttur í efnahagslífi þess lands. Af þeim sökum er mjög ólíklegt að evrópsk löggjöf muni taka þeim breytingum sem í raun er þörf á, heldur verða einungis tekin lítil skref til að taka á helstu vandamálum á hverjum stað. Það er ekki sjálfgefið að þau sömu skref hjálpi okkur hér.
Aðstæður á Íslandi í dag eru þannig að hægt er að ganga alla leið í þá átt sem aðrar þjóðir hafa viljað, með litlum tilkostnaði og nær engri röskun á fjármálakerfinu.
Aðskilnaður er einföld aðgerðHin rökin sem helst hafa verið nefnd fyrir því að aðskilja ekki eru samlegðaráhrif fyrir viðskiptabankana og áhættudreifing. Þegar rekstrarreikningar bankanna þriggja fyrir 2011 eru skoðaðir, þá kemur í ljós að tekjur þeirra af starfsemi sem tillögurnar um aðskilnað taka til, eru óverulegar. Í skýrslu greiningardeildar Arion banka er hún metin sem 5% af heildarstarfsemi og 2% af efnahagi. Hvað áhættudreifingu varðar, þá ganga tillögurnar út á að takmarka fjárfestingu í áhættumestu eignunum. Áhrifin og kostnaðurinn verða því að teljast verulega lítil í samhengi hlutanna.
Viðskiptabankarnir hafa lýst því yfir að þeir hyggist auka fjárfestingabankastarfsemi verulega á næstu árum. Mun sú staða e.t.v. koma upp, samhliða því að ekki verður hægt að færa eignir meira upp sem færðar voru úr gömlu bönkunum, að freistnivandinn nái yfirhöndinni til að halda arðsemi ásættanlegri?
Hvað gerðist á árunum fyrir 2008?
Aðskilnaður mun leiða til minni áhættusækni viðskiptabankanna, meiri fjölbreytni og aukins gagnsæis og þar með gera eftirlit skilvirkara. Hann er einfaldur í framkvæmd og leiðir ekki til mikils tilkostnaðar eða röskunar á íslenska fjármálakerfinu sé þetta framkvæmt nú. Hvers vegna ættum við að taka áhættuna ef hægt er að komast hjá því með litlum sem engum tilkostnaði? Er ekki lag að gera þetta nú, í stað þess að bíða þar til það verður dýrt og erfitt í framkvæmd, eða jafnvel of seint? Svarið virðist augljóst.