Skoðun

Hin hliðin frá Húsavík

Pálmi Pálmason skrifar
Mikið hefur verið fjallað um ráðningu sýslumannsins á Húsavík og þar hafa ýmsar yfirlýsingar og stór orð fallið. Umræðan hefur verið mjög einhliða. Vegna þessa tel ég rétt að fram komi að ég er ekki málkunnugur Ögmundi Jónassyni eða tengdur honum á nokkurn hátt.

Hæfir umsækjendurEn þetta mál snýst fyrst og fremst um fólk sem sótti um starf sem það hafði áhuga fyrir og menntun til að sinna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi sem skrifstofustjóri embættisins að vinna með Svavari Pálssyni í u.þ.b. átta ár, en ég hætti störfum í maí sl. Svavar kom til starfa sem fulltrúi sýslumanns árið 2004 og fljótlega var hann orðinn staðgengill sýslumanns. Árið 2009 var Svavar settur sem sýslumaður af Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, þar til hann var skipaður um síðustu áramót. Hann hafði þá verið settur í embætti alls ellefu sinnum! Þessa óvissu lét hann yfir sig ganga allan þennan tíma og sinnti sínu starfi af mikilli fagmennsku og trúmennsku.

Enginn hefur borið brigður á það að Svavar uppfylli algjörlega kröfur um menntun til starfsins. Enginn hefur bent á mistök eða slæleg vinnubrögð hans sem setts sýslumanns, heldur þvert á móti, framganga hans hefur þótt til mikillar fyrirmyndar. Með þessum orðum er ég ekki að kasta rýrð á kærandann í málinu, Höllu Bergþóru Björnsdóttur, því við hjá embættinu þekktum hana að góðu einu.

Hæfnismat er heildstættNú hefur margsinnis komið fram í fjölmiðlum að kærandinn sé hæfari en sá er skipaður var. Hér skal leiðrétt að kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að umsækjendur væru a.m.k. jafnhæfir eða „stóðu nokkuð jafnt að vígi varðandi hlutlæga þætti efnismatsins”. Hin svokölluðu „huglægu” skilyrði um starfshæfni, mannleg samskipti, andlegt atgervi, samstarfshæfni, eiginleika og færni, sem sett eru sem skilyrði nr. 9-12 í auglýsingunni um starfið og öllu skipta þegar á vinnustað er komið, voru ekki metin af kærunefndinni. Aðeins sagt að ráðherra skyldi nú fara varlega í að meta það!

Georg BjarnfreðarsonÍ mjög góðri grein í Fréttablaðinu þ. 4. september eftir Ástu Bjarnadóttur, vinnu- og skipulagssálfræðing, kemur fram hvernig kærunefnd jafnréttismála vinnur. Ásta bendir á ýmislegt í þeirri vinnu sem mætti kannski taka til frekari skoðunar.

Skipaður sýslumaður uppfyllir menntunarkröfur, hann hefur einnig mjög yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á starfseminni sem fram fer í embættinu. Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að kærandinn sé hæfari en sá er ráðinn var sem er fullkomlega hæfur? Það hafa vissulega vaknað spurningar hversu vel kærunefnd jafnréttismála þekki til starfsemi sýslumannsembætta.

Jafnréttismál?En sú spurning hlýtur að vakna, af hverju að henda út starfsmanni sem hefur sinnt starfinu í á þriðja ár og staðið sig með einstökum sóma bæði sem embættismaður og sem persóna? Af því hann er karl? Gildir reglan um jákvæða mismunun án tillits til aðstæðna? Ég stend í þeirri meiningu að tilgangur jafnréttislaganna hafi fyrst og fremst verið að stuðla að jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði almennt en ekki vera haldreipi í baráttu hæfra einstaklinga um einstakar forstöðumannsstöður hjá ríkinu.

Áhrif á reksturÍ viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 8. september segir Halla Bergþóra: „Í meðmælabréfi starfsmanna embættisins á Húsavík var t.d. gefið í skyn að væntanlega myndi koma til uppsagna kæmi einhver annar inn fyrir settan sýslumann sem ég er ekki sammála og hefði getað andmælt hefði ég fengið færi á.” Sem fjármálastjóri embættisins í 16 ár get ég fullvissað lesendur um það að annaðhvort var um að ræða að fá hækkun á fjárheimild til embættisins sem þó er almennt útilokað á niðurskurðartímum, minnka starfshlutfall starfsmanna eða segja upp starfsmanni ef ráðning hennar hefði gengið fram.

Stuðningslisti starfsfólksJafnframt segir Halla Bergþóra: „Það er hreinlega ósanngjarnt að setja fólk í þá stöðu, að yfirmaður biðji það um að skrifa undir slíkt skjal fyrir annan yfirmann.” Það er nokkuð bratt finnst mér að Halla Bergþóra skuli setja svona yfirlýsingu frá sér, því starfsfólk var ekki „beðið” um að skrifa undir en þetta var vissulega rætt sameiginlega. Nauðsynlegt er að upplýsa að starfsmenn embættisins 18 að tölu, lögreglumenn og skrifstofufólk, skrifuðu ráðherra þetta bréf að eigin frumkvæði og án aðkomu eða nokkurrar vitneskju Svavars Pálssonar, þar sem þess var eindregið óskað að Svavar yrði skipaður sýslumaður.

Af hverju skyldi það hafa verið? Jú, við vorum viss um það væri embættinu til góðs og af reynslu vissum við að það væri starfsfólkinu og vinnustaðnum til góðs.

Það er ekki nokkur vafi á því að ráðherrann hefur horft til hagsmuna embættisins og starfsmanna þess við ákvörðun sína og beitt heilbrigðri skynsemi. Það er þakkar- og virðingarvert. Ég mun ekki tjá mig frekar um þetta mál en þessar athugasemdir eru óhjákvæmilegar.




Skoðun

Sjá meira


×