Skoðun

Utanríkisráðherra á villigötum

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Með venjulegan skammt af sjálfshóli í farteskinu stærir Össur Skarphéðinsson sig í aðsendri grein í Fréttablaðinu 11. september af snilli ríkisstjórnarinnar í baráttunni við atvinnuleysið í kreppunni. Átakið „Allir vinna“, þar sem ákveðið var að endurgreiða 100% virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna við viðhald bygginga, kallar hann „eitt allra snjallasta ráðið…til að skapa störf“ og „djarfa ákvörðun“ sem ríkisstjórnin tók alein, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hvarf úr ríkisstjórn.

Ég vil í upphafi fagna því að í fyrsta sinn í mjög langan tíma stígur forystumaður í Samfylkingunni fram sem virðist muna eftir því að Samfylkingin hafi verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hann segir það að vísu ekki beint, en hann lætur þó í það skína. Það er ákveðin framför.

Skilaboð greinar ráðherrans eru hins vegar kostuleg og eiginlega ótrúlegt að hann skuli leggja í þennan leiðangur. Á sama tíma og tilvonandi fráfarandi fjármálaráðherra háir heilaga skattahækkunarbaráttu við ferðaþjónustuna með þeim rökum að lægra virðisaukaskattsþrepið sé ígildi ríkisstyrks, kemur utanríkisráðherrann og gumar af því „snjallræði“ að önnur atvinnugrein fái sína skatta endurgreidda. Hann lætur þess reyndar ógetið að endurgreiðsla þessi er ýmsum takmörkunum háð og mismunar iðnaðarmönnum með mjög grófum hætti. Ef málarinn t.d. málar handrið á staðnum má draga skattinn frá en ef handriðið er flutt á verkstæðið er fullur skattur á verkinu – svo lítið dæmi sé nefnt.

En þarna er vinstri mönnum rétt lýst – þeir vilja með stjórnvaldsákvörðunum ákveða hverjir fá að vinna og hverjir ekki, hvort skurðurinn sé grafinn með skóflu eða gröfu. Að mínu mati eiga stjórnvöld að láta slíkar ákvarðanir eiga sig. Stóri lærdómurinn af átakinu „Allir vinna“ er að lægri skattar auka umsvif í þjóðfélaginu, hvetja til atvinnuuppbyggingar og hagvaxtar vegna þess að þá verður meira eftir í vasa einstaklinganna sjálfra. Þannig vinna allir – ekki bara sumir eins og utanríkisráðherrann virðist vera svo stoltur af.




Skoðun

Sjá meira


×