Lífið

Frasakóngurinn gerist atvinnuplöggari

Jón Gunnar Geirdal ætlar að gefa hugmyndum og viðburðum aukið líf í nýju markaðssetningarfyrirtæki sínu Ysland.
Jón Gunnar Geirdal ætlar að gefa hugmyndum og viðburðum aukið líf í nýju markaðssetningarfyrirtæki sínu Ysland. Fréttablaðið/stefán
„Nú er plöggarinn loksins farinn að plögga sjálfum sér,“ segir markaðsmaðurinn, hugmyndasmiðurinn og frasakóngurinn Jón Gunnar Geirdal sem nýverið stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Ysland.

Ysland er markaðssetningarfyrirtæki sem sérhæfir sig í kynningum, viðburðahaldi og samskiptum við fjölmiðla fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir. Jón Gunnar segir sjálfur að fyrirtækið sé staður þar sem hugmyndir og viðburðir öðlast aukið líf.

Jón Gunnar hefur lengi sinnt þessum störfum í hjáverkum samhliða starfi sínu hjá markaðsdeild N1. Eftir helgi verður hann loksins sinn eigin herra, eitthvað sem Jón Gunnar hefur langað til lengi. „Fyrirtækið er bara ég, farsíminn og fartölvan. Þetta er svona hin almenna ódauðlega hugmyndavinna og mottóið mitt er „love all serve all“,“ segir Jón Gunnar glaður í bragði, en hann hefur komið sér fyrir í skrifstofuhúsnæði á 12. hæð í Turninum í Kópavogi.

Jón Gunnar hefur meðal annars séð um markaðssetningu á íslenska Expó-skálanum og á myndunum Svartur á leik og Okkar eigin Osló. Næst á verkefnalistanum er kvikmyndin Frost sem verður frumsýnd 7. september. Hann er með mörg járn í eldinum og óttast ekki að sitja auðum höndum í vetur. „Það er nóg að gera og ég er tilbúinn að vera vinna allan sólarhringinn enda er ég vinnualki í mér.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.