Skoðun

Fjárhagur framhaldskólanna

Ólafur Haukur Johnson skrifar
Umræða hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga um fjárhag framhaldsskólanna. Stjórnendur þeirra hafa kvartað undan þröngri stöðu og undir þau sjónarmið hefur verið tekið af ráðherra. Látið er eins og að staðan sé verri en þolanlegt er og að nú þurfi að auka útgjöld til skólanna. Staðan er ekki svona slæm að mínu mati og ágætir kostir í stöðunni. Nú er tækifæri til að endurskipuleggja skólastarfið með það í huga að bæta það, auka aga og stytta námstímann. Þannig má auka skilvirkni nemenda og draga úr kostnaði. Svigrúm til að gera þetta er vissulega til staðar.

Víst er það svo að skólarnir og stjórnendur þeirra hafa oft haft meira fé til að gera það sem þá langar til, en það á við flesta í þjóðfélaginu. Fram hjá hinu verður ekki horft að niðurskurður til framhaldsskólanna hefur verið minni en víðast annars staðar þrátt fyrir að þar sé svigrúmið og hagræðingarmöguleikarnir sennilega meiri en hjá flestum öðrum. Vandinn er sá að stjórnendur og starfsfólk skólanna hafa ekki beinan hag af hagræðingu og hún kostar vinnu og er sjaldnast gleðigjafi. Því þarf að búa til hvata í kerfinu fyrir þá sem standa fyrir breytingunum. Fyrir ráðherra gildir það sama. Því fylgir óánægja og aukin vinna að hagræða.

Fram undan er einstakt tækifæri til að taka rekstur og skipan skólanna til endurskoðunar. Tel ég að nýta megi fjármuni ríkisins betur en gert er. Einnig finnst mér slæmt að horfa upp sóun á tíma og fjármunum nemenda framtíðarinnar verði engu breytt. Nauðsynlegt er að nýta það tækifæri sem nú er til endurskipulagningar skólastarfsins, bæði í grunnskóla og framhaldsskóla, þannig að kostnaðurinn minnki. Stefna þarf að einfaldari og skipulagðari skóla sem lýkur við 18 ára aldur eins og hjá flestum þjóðum en ekki 20 ára eða enn seinna eins og hér er. Þar liggja gríðarleg fjárhagsleg tækifæri sem verður að nýta.

Greinarstúfur þessi verður vafalítið túlkaður af mörgum sem leiðindi af minni hálfu vegna þeirrar stöðu sem nú er hjá Menntaskólanum Hraðbraut. Ekki er það hvati minn að greinaskrifum þessum. Ástæðan fyrir því að ég rita þetta er eingöngu sú að skólamál eru mér mikið hjartans mál og því er mér mikilvægt að leggja málinu lið. Hinu er þó ekki að leyna að ég tel að staða þessara mála væri önnur og betri ef Menntaskólinn Hraðbraut hefði fengið að starfa áfram af krafti. Þá væri vandinn við að finna umsækjendum skólavist minni en nú er. Einnig er skólinn án nokkurs vafa hagkvæmasti framhaldsskóli landsins. Ekki aðeins er skólinn hagkvæmastur vegna þess að nám til stúdentsprófs er þar mun styttra en í öðrum skólum, heldur var ráðherra einnig boðið að greiðsla til skólans fyrir hvern nemenda yrði lægri en til annarra skóla. Þrátt fyrir þetta synjaði ráðherra Hraðbraut um nýjan þjónustusamning. Það hlýtur að vekja upp spurningar nú. Þetta gerist á sama tíma og fjölmargir umsækjendur um skólavist hafa ekki fengið inni í skólunum. Að fá ekki inni í skóla er ekki aðeins sár reynsla, því fylgir mikið tjón fyrir þá nemendur sem í hlut eiga. Á meðan við erum flest sammála um að í menntun felist ávinningur fyrir þjóðfélagið allt hljótum við einnig flest að vera sammála um að svona stjórnun þessara mála þýði mikið fjárhagstjón fyrir þjóðfélagið. Við þurfum að sameinast um að bæta þau mál. Til þess er ég reiðubúinn.




Skoðun

Sjá meira


×