Skoðun

Fjárfest í tækifærum

Kristján Freyr Kristjánsson skrifar
Í síðustu viku birtist fréttaskýring þess efnis að margir lífeyrissjóða landsins væru ekki áhugasamir um að fjárfesta í nýsköpun þar sem slíkar fjárfestingar þættu „áhættusamar og eru [lífeyrissjóðirnir] enn brenndir eftir mislukkaðar fjárfestingar í nýsköpun í kringum aldamótin".

Í þessu samhengi má ekki gleyma því að þau verðmæti sem athafnamenn skapa verða ekki til af sjálfu sér. Oftar en ekki þarf talsverðan tíma til að þróa nýja vöru eða þjónustu sem getur verið grundvöllur að nýjum verðmætum. Þennan tíma þurfa fyrirtæki vanalega að fjármagna með fjárfestingum fjársterkra aðila, oftar en ekki lífeyrissjóða eða annarra sem geta bundið fé til lengri tíma. Til að mynda þurftu fyrirtæki á borð við Össur, Marel og CCP í kringum 10 ár til að teljast árangursrík fyrirtæki.

Á Íslandi í dag er fátt mikilvægara en að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum sem hafa möguleika á að búa til aukin verðmæti. Því verða fjársterkir aðilar hér á landi að taka höndum saman og taka áhættu með þeim athafnamönnum sem eru tilbúnir til að stofna ný fyrirtæki. Þetta á við um lífeyrissjóði, en ekki síður fjársterka einstaklinga og reynslumikla aðila sem geta hjálpað nýjum fyrirtækjum að vaxa með fjármagni sínu, reynslu og tengslaneti. Vissulega felst meiri áhætta í að fjárfesta í fyrirtækjum á fyrri stigum, þar sem ákveðin óvissa ríkir um framtíð þeirra. Hins vegar má ekki gleymast að ávinningurinn er þeim mun meiri ef vel tekst til.

Aldrei hefur verið jafn mikið af möguleikum fyrir fjármagnseigendur á Íslandi til að kynnast nýjum viðskiptatækifærum. Nýsköpunar- og frumkvöðlasetrin Innovit og Klak hafa tekið höndum saman með Arion banka og komið upp sérstökum fjárfestadegi. Næstkomandi föstudag munu tíu ný íslensk fyrirtæki kynna sig fyrir áhugasömum fjárfestum í höfuðstöðvum Arion banka. Þau hafa þá lokið þátttöku í tíu vikna frumkvöðlaprógrammi sem kallast Startup Reykjavík en þar hafa þau meðal annars fengið ráðgjöf frá á sjötta tug forstjóra, innlendra og erlendra sérfræðinga og athafnamanna. Þetta eru raunveruleg viðskiptatækifæri sem eiga fyrir höndum langt og strangt ferðalag. En spurningin sem eftir stendur er: Hverjir treysta sér með?




Skoðun

Sjá meira


×